Landsbankinn þinn

Fara neðar

Betri bankaviðskipti


Landsbankinn kynnti á árinu 2018 fjölda nýjunga í stafrænni þjónustu sem er ætlað að gera líf viðskiptavina einfaldara og bankaviðskipti auðveldari. Nýtt Landsbankaapp, fyrsta kortaappið sem gerir viðskiptavinum kleift að greiða með símanum, rafrænt greiðslumat og rafrænt lánaumsóknarferli eru á meðal þeirra nýjunga sem litu dagsins ljós.

Fara neðar
Netbanki einstaklinga í fartölvu
Sjaldan eða aldrei hafa orðið jafnmiklar breytingar á þjónustu Landsbankans við einstaklinga og á árinu 2018. Bankinn kynnti þá um 20 nýjungar í stafrænni þjónustu og með tilkomu þeirra geta einstaklingar nú leyst mun fleiri bankaerindi með stafrænum hætti. Fjölmörg erindi sem áður kröfðust heimsóknar í útibú er nú hægt að leysa í sjálfsafgreiðslu hvenær sem viðskiptavinum hentar.

Stórsókn í stafrænum lausnum

Landsbankinn leggur mikla áherslu á stafræna þjónustu og vill að viðskiptavinir, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, geti með einföldum hætti sinnt öllum helstu bankaviðskiptum, hvar og hvenær sem þeim hentar. Stafræn þjónusta á að spara viðskiptavinum tíma og fyrirhöfn og erindi þeirra eiga að fá skjóta afgreiðslu. Eiga þeir að fá persónulega þjónustu sem er sniðin að þeirra þörfum.

Í árslok 2017 tók Landsbankinn í notkun nýtt innlána- og greiðslukerfi frá Sopra í samvinnu við Reiknistofu bankanna en verkefnið var eitt umfangsmesta og flóknasta upplýsingatækniverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi. Þar með gat bankinn sett enn meiri kraft í þróunarvinnu og blásið til stórsóknar í stafrænni þjónustu, í takt við nýjar stefnuáherslur bankans.

Árangurinn lét ekki á sér standa. Um 20 nýjar lausnir litu dagsins ljós á árinu 2018 og fleiri nýjungar verða kynntar á árinu 2019.

Viðskiptavinir eiga að hafa gott aðgengi að upplýsingum, góða yfirsýn yfir fjármálin og eiga auðvelt með að koma í viðskipti með stafrænum hætti.

Nýtt Landsbankaapp

Nýtt Landsbankaapp var gert aðgengilegt í Google Play Store og App Store í febrúar og hafa viðtökur við því verið mjög góðar. Frá útgáfu og til ársloka 2018 hefur appið verið uppfært margoft og nýjum möguleikum verið bætt við. Í appinu fá viðskiptavinir skýra og einfalda sýn á fjárhagslega stöðu sína um leið og þeir skrá sig inn. Auðvelt er að kafa dýpra og fá nánari upplýsingar um hvern þjónustuþátt.

Í appinu er að finna allar algengustu aðgerðir úr netbanka einstaklinga og stundum eru aðgerðir fyrst kynntar í appinu, áður en þær verða aðgengilegar í netbankanum.

Heimsóknir í netbanka, Landsbankaappið og l.is 2018

Greiðslumat á netinu

Þeir viðskiptavinir sem nýta sér rafræn skilríki gátu frá og með febrúar 2018 sótt um greiðslumat hjá Landsbankanum í sjálfvirku ferli á netinu. Með því móti geta viðskiptavinir áttað sig á greiðslugetu sinni og möguleikum á lántöku á fljótlegan hátt hvenær sem þeim hentar. Í kjölfarið er í sama ferli hægt að senda inn rafræna umsókn um íbúðalán með þeirri lánasamsetningu sem hentar best. Með þessu móti er hægt að velja hvort sótt er um íbúðalán í næsta útibúi eða í gegnum rafrænar lausnir bankans.

Áhersla á rafrænar undirritanir

Landsbankinn hefur undanfarið lagt áherslu á að fjölga tilfellum þar sem boðið er upp á rafrænar undirritanir og á árinu 2018 varð þreföldun á þessum möguleika. Viðskiptavinum var gert kleift að undirrita með rafrænum hætti bílalán, umboð um fjárhagsupplýsingar, samning um viðbótarlífeyrissparnað, forsendur greiðslumats, kreditkortaumsóknir, samning um viðskiptasamband, heimild til öflunar persónusniðinna gagna vegna 360° samtals og fleira.

Greiðslumat í sjálfsafgreiðslu 2018

Hægt að frysta kreditkort í Landsbankaappinu

Í maí var kynntur sá valmöguleiki að frysta kreditkort með einföldum hætti í Landsbankaappinu. Viðskiptavinir geta þar með sjálfir lokað fyrir alla notkun kreditkortsins fyrir utan boðgreiðslur og reglubundnar greiðslur. Korthafi getur sjálfur virkjað kortið aftur í Landsbankaappinu þegar honum hentar.

Erlendar greiðslur í netbankanum

Viðskiptavinum var í júní boðið upp á að framkvæma sjálfir erlendar greiðslur í netbankanum. Um hálfu ári síðar, í desember 2018, voru um 86% af öllum erlendum greiðslum framkvæmdar í netbankanum. Þessi aðgerð var gerð aðgengileg í Landsbankaappinu í janúar 2019. Áður þurftu viðskiptavinir að hringja í Þjónustuver eða koma í útibú til að framkvæma erlendar greiðslur.

Verðlaun frá Citibank fyrir góðan árangur

Í desember afhenti Citibank Alþjóðlegri greiðslumiðlun Landsbankans verðlaun fyrir STP-læsi erlendra millifærslna frá Landsbankanum. Landsbankinn hefur fengið þessi verðlaun áður en að þessu sinni var STP Landsbankans hærra en nokkru sinni fyrr. STP stendur fyrir greiðslur sem renna í gegnum rafræn kerfi, án nokkurra athugasemda.

STP fyrir útsendar færslur frá Alþjóðlegri greiðslumiðlun á sex mánaða tímabili árið 2018 var 99,33%. Það þýðir að hægt er að lesa 99,33% af öllum færslunum rafrænt sem þykir frábær árangur.

Árið 2018 varð 14% aukning á erlendum færslum frá Landsbankanum.

Erlendar greiðslur í sjálfsafgreiðslu 2018

Stofna til viðskipta í Landsbankaappinu og á vefnum

Tilvonandi viðskiptavinum var í júlí gert kleift að stofna til viðskipta beint í gegnum Landsbankaappið. Einstaklingar sem eiga rafræn skilríki geta nú sótt Landsbankaappið í símann sinn og gerst viðskiptavinir á örfáum mínútum

Með því að bjóða upp á stofnun viðskipta með stafrænum hætti fá nýir viðskiptavinir aðgang að netbanka Landsbankans og veltureikning hvenær sem þeim hentar. Í sama ferli fá þeir val um að tengja debetkort við veltureikninginn en einnig er hægt að velja að stofna sparireikning og/eða verðbréfaþjónustu. Fyrst um sinn var lausnin einungis í boði í appinu en síðar á árinu varð hún einnig aðgengileg á vef Landsbankans.

Kortaapp Landsbankans

Kortaapp Landsbankans var kynnt í október 2018 og var fyrsta appið á Íslandi sem gerir viðskiptavinum kleift að nota símann til að greiða fyrir vörur og þjónustu í snertilausum posum um allan heim, óháð upphæðartakmörkunum. Appið er þróað af Visa og hefur verið í notkun í Bandaríkjunum og víðar um nokkurt skeið. Landsbankinn var fyrsti bankinn á Íslandi sem bauð upp á þessa þjónustu og með þeim fyrstu í Evrópu. Kortaappið er aðgengilegt öllum í Google Play Store.

Appið er greiðslulausn sem geymir bæði debet- og kreditkort viðskiptavina í farsímum með Android-stýrikerfi. Hægt er að auðkenna sig í kortaappinu og framkvæma greiðslu með því að skrá sig inn með fingrafari, lykilorði eða augnskanna sem kemur þá í stað PIN-númers.

Frysta debetkort í Landsbankaappinu

Frá og með nóvember 2018 hefur verið boðið upp á möguleikann á að frysta debetkort með einföldum hætti í Landsbankaappinu. Með aðgerðinni er lokað fyrir alla notkun greiðslukortsins. Korthafi getur síðan virkjað kortið aftur í appinu þegar honum hentar.

Breyta kreditkortaheimild í Landsbankaappinu

Í desember var byrjað að bjóða viðskiptavinum að breyta sjálfir kreditkortaheimild sinni í Landsbankaappinu og netbankanum út frá fyrirfram skilgreindri heimild. Hægt hefur verið að stilla yfirdráttarheimildir í netbankanum og Landsbankaappinu síðan 2017.

Stofnun erlendra reikninga í netbankanum

Frá og með desember 2018 hefur verið hægt að stofna sparireikninga í erlendri mynt í netbanka einstaklinga. Lausninni var strax afar vel tekið en í desembermánuði voru um 50% erlendra reikninga stofnaðir í sjálfsafgreiðslu.

Umsóknir um íbúðalán og endurfjármögnun

Í desember var einnig byrjað að bjóða upp á að sækja um íbúðalán og endurfjármögnun með stafrænum hætti á vef Landsbankans. Viðtökur voru mjög góðar og léttu á álagi í útibúum. Mikil aukning var á veittum íbúðalánum á árinu 2018 og þessi lausn, auk rafræns greiðslumats sem var kynnt fyrr á árinu, gerði bankanum kleift að anna eftirspurninni mun hraðar og betur en áður.

Netspjall Landsbankans opnað

Netspjall var opnað og gert aðgengilegt á vef Landsbankans í desember. Þar geta viðskiptavinir sent inn fyrirspurnir og erindi og átt samskipti við þjónustufulltrúa. Netspjallið veitir viðskiptavinum skjótan aðgang að bankaþjónustu. Lausnin er til viðbótar við þann möguleika að senda inn fyrirspurnir í gegnum Facebook Messenger.

Stofnað til viðskipta á vefnum

Frá og með desember 2018 hefur verið hægt að stofna til viðskipta á vef Landsbankans og í Landsbankaappinu en síðarnefnda lausnin var kynnt til sögunnar í júní 2018. Einstaklingar sem eiga rafræn skilríki geta gerst viðskiptavinir á einfaldan og stafrænan hátt. Þeir fá strax aðgang að netbanka Landsbankans og veltureikningi og hafa síðan val um að fá debetkort tengt reikningnum en einnig er hægt að velja að stofna sparireikning og/eða verðbréfaþjónustu í sama ferli.

Landsbankinn leggur mikla áherslu á að veita fyrirtækjum um allt land bestu fjármálaþjónustu sem völ er á. Fyrirtæki, líkt og einstaklingar, vilja hafa góðan aðgang að stafrænni bankaþjónustu og því er afar mikilvægt fyrir bankann að bjóða upp á öflugan og traustan netbanka fyrir fyrirtæki.

Mánaðaryfirlit fyrir fyrirtæki

Fyrirtækjum var í janúar boðið að skrá sig í mánaðarlega áskrift að lykilstærðum í bankaviðskiptum í netbanka fyrirtækja. Framsetningin er með töflusniði og miðar að þörfum fjármálastjóra, fjárreiðustjóra, innri og ytri endurskoðenda og bókara.

Betra rekstraryfirlit fyrir húsfélög

Rekstraryfirlit húsfélaga var stórbætt í janúar þegar afhending rekstraryfirlita fyrir húsfélög var færð til sama horfs og bæði árs- og mánaðaryfirlitin, þ.e.a.s. sem ítarleg og vönduð PDF-skjöl til niðurhals í netbankanum í stað blöndu af einfaldri vefsíðu og rafrænum skjölum. Af mörgum ástæðum eru PDF-skrár notendavænni miðill en rafrænu skjölin, enda auðvelt að vista PDF-skjöl og deila þeim. Nýju yfirlitin eru einnig efnisríkari og húsfélögum var boðið að vera í mánaðarlegri áskrift að rekstraryfirlitunum.

Betra greiðslusamþykktarkerfi í netbanka fyrirtækja

Greiðslusamþykktarkerfið í netbanka fyrirtækja er valkvæð þjónusta og er veitt án endurgjalds. Virknin er á þá leið að greiðsla framkvæmist ekki fyrr en að fengnu samþykki eins eða fleiri notenda netbankans með þar til bær réttindi. Árið 2018 var rekjanleiki sjálfra samþykktanna gerður sýnilegri þar sem greiðandi (fyrirtækið) sér meiri ítarupplýsingar um hvaða notandi samþykkti hvaða greiðslu hvenær, og hvaða samþykktarréttindi viðkomandi hafði á þeirri stundu sem hann veitti samþykki sitt.

Betri framsetning á yfirliti lánasafna fyrirtækja

Í desember 2017 kynnti Landsbankinn langtum yfirgripsmeira og aðgengilegra yfirlit lánasafns fyrirtækja. Viðskiptasamningum var í fyrsta sinn gerð sérstök skil, þar sjást allar mikilvægar upplýsingar um ádrætti, hve mikið er til ráðstöfunar innan samningsrammans, upplýsingar um leggi innan samnings og margt fleira.

Í febrúar 2018 bættust tveir nýir undirkaflar í lánayfirlitið sem sýna yfirdráttarlán og stöðu kreditkorta en hvorutveggja flokkast sem skammtímaskuldir og voru áður aðeins sýndar á þar til gerðum vefsíðum. Smiðshöggið var svo rekið í apríl með birtingu greiðsluflæðis lánasafna í fortíð, nútíð og framtíð.

Betri stýring á aðgangsréttindum í netbanka fyrirtækja

Aldrei hafa jafn mörg ný aðgangsréttindi litið dagsins ljós og á árinu 2018. Með fjölgun réttinda jókst aðlögunarhæfni netbanka fyrirtækja gagnvart ólíku starfshlutverki notenda innan fyrirtækja. Tilgangurinn er ekki síst sá að koma til móts við breyttar þarfir fyrirtækja, bætt aðgengi þriðja aðila (gestatengingar endurskoðenda, ráðgjafa, innheimtufyrirtækja og þess háttar) og aukna áherslu á öryggismál.

Betri aðgangsstýringar í netbanka fyrirtækja

Á árinu 2018 var lokið við átak í breytingum á aðgangsstýringum í netbanka fyrirtækja. Fyrirtækjum voru veittar stórauknar heimildir til að ráða sínum netbankamálum sjálf. Fyrirtæki gátu þar með sjálf stýrt netbankaaðgangi sínum, s.s. hækkað og lækkað úttektarheimildir notenda, skilgreint margvísleg réttindi notenda í netbankanum, stofnað nýja notendur og fjölmargt fleira.

Senda PDF í gegnum B2B

Mikilvægt framfaraskref var stigið í B2B-vefþjónustu Landsbankans (beintenging við bókhald) í september þegar sendendum rafrænna skjala var boðið að senda PDF-skjöl til birtingar í netbönkum. Breytingin veitir bæði sendendum og hugbúnaðarþjónustuaðilum þeirra mikið hagræði.

Breytingar á hlutverki bankaútibúa

Notkun á stafrænum lausnum Landsbankans er mikil og viðskiptavinir eru fljótir að tileinka sér nýjungar. Um leið og notkun á ýmis konar sjálfsafgreiðslulausnum hefur aukist hefur hlutverk útibúa breyst og heimsóknum þangað fækkað. Í útibúunum er því nú lögð meiri áhersla á hvers kyns fjármálaráðgjöf og aðstoð við viðskiptavini, m.a. við að tileinka sér nýja tækni. Í maí 2018 tóku gildi breytingar á afgreiðslutíma 11 útibúa og afgreiðslna bankans, auk þess sem skipulagsbreytingar voru gerðar á útibúi Landsbankans við Hagatorg í Reykjavík.

Sameiginlegt seðlaver þriggja banka

Á árinu 2018 flutti Landsbankinn starfsemi aðalféhirðis í sameiginlegt seðlaver bankanna þriggja, þ.e. Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka. Markmiðið er að hagræða í rekstri bankakerfisins á Íslandi. Samkeppniseftirlitið hafði áður veitt bönkunum þremur undanþágu til stofnunar og reksturs seðlavers.

Miklar breytingar á greiðsluþjónustu í farvatninu

Unnið er að gerð frumvarps sem mun innleiða nýja tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu (PSD2) í íslensk lög. Með innleiðingunni mun greiðsluþjónusta á Íslandi taka umtalsverðum breytingum. Gerð verður krafa um að bankar veiti nýjum aðilum, sem uppfylla tiltekin skilyrði, heimild til að virkja greiðslufyrirmæli og veita aðgang að miðlun greiðsluupplýsinga af greiðslureikningum fyrir þá viðskiptavini sem kjósa að nota þjónustu þeirra. Ekki liggur fyrir hvenær tilskipunin tekur gildi á Íslandi.

API-markaðstorg Landsbankans

Breytingarnar sem PSD2 felur í sér eru stundum kenndar við svokallað opið bankakerfi (e. open banking) en opið bankakerfi snýst m.a. um að tiltekin þjónusta banka er gerð aðgengileg í gegnum markaðstorg fyrir forritunarskil, einnig nefnt API-markaðstorg (e. application programming interface). Þriðju aðilar, s.s. fjártæknifyrirtæki, geta skráð sig inn á markaðstorgið og þróað vörur og þjónustu upp á eigin spýtur eða í samstarfi við bankann, til hagsbóta fyrir viðskiptavini. PSD2 kveður á um að tiltekin þjónusta verði aðgengileg í slíku umhverfi. Markaðstorgin bjóða einnig upp á fjölda tækifæra til frekari þróunar bankaþjónustu fyrir viðskiptavini bankans. Landsbankinn vinnur að því að gera slíkt markaðstorg aðgengilegt.

Mikilvægt samspil banka og fjártæknifyrirtækja

Til lengri tíma má gera ráð fyrir að ávinningur neytenda af þessum breytingum geti orðið töluverður, taki þeir opnu bankakerfi opnum höndum, en þar hefur samspil banka og fjártæknifyrirtækja mikið að segja. Landsbankinn ætlar að vera í fararbroddi í opnu bankakerfi þannig að viðskiptavinir bankans njóti góðs af nýju landslagi og fái bestu bankaþjónustu sem völ er á. Landsbankinn gerðist á árinu stofnaðili að Fjártækniklasanum en tilgangur hans er að efla nýsköpun í fjármálum og gera viðskipti af öllu tagi auðveldari og betri.

Útibúanet Landsbankans

Artboard 1

Landsbankinn rekur víðfeðmasta útibúanet íslenskra banka en alls rekur bankinn 37 útibú og afgreiðslur um allt land.

Nánar um útibúanetið
Tilraunum til fjársvika á netinu fjölgaði á árinu 2018 og einkenndust þær aðallega af fyrirmælafölsunum sem beint var gegn fyrirtækjum. Einnig fjölgaði svikum á samfélagsmiðlum en svo virðist sem auðvelt sé að fá fólk til að gefa upp kortanúmer sín á Facebook. Þá eru lífsstílsöpp orðin vinsæl skotmörk netþrjóta.

Samstarf stuðlar að auknu öryggi í bankaviðskiptum

Landsbankinn leggur mikla áherslu á öryggimál og er aðili að margvíslegu alþjóðlegu samstarfi um aukið netöryggi þar sem bankar miðla m.a. verðmætri þekkingu og reynslu af baráttu gegn netsvikum. Netglæpir verða sífellt þróaðri og því er brýn þörf á að fjármálafyrirtæki leggi saman krafta sína til að berjast gegn þeim. Í dagsins önn er það snerpan sem öllu máli skiptir, að geta brugðist hratt við tilraunum til svika og annarri yfirvofandi ógn. Landsbankinn gerðist á árinu 2017 aðili að Nordic Financial CERT, samtökum norrænna fjármálafyrirtækja, fyrstur íslenskra fjármálafyrirtækja. Nordic Financial CERT er ætlað að efla netöryggi og verjast glæpastarfsemi á netinu. Starfsemin þar er öflug og lipur og hefur þegar sannað gildi sitt.

Fræðsla til viðskiptavina í öndvegi

Á árinu 2018 tóku sérfræðingar bankans virkan þátt í opinberri umræðu í fréttamiðlum og á ráðstefnum og birtu greinar og myndbönd um netöryggi á Umræðunni, frétta- og efnisveitu bankans. Landsbankinn beinir þeim tilmælum til fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga, að þau framkvæmi reglulegar öryggisprófanir, framkvæmi æfingar og efli stöðugt öryggisfræðslu meðal starfsfólks.  • Greinar um netöryggi hafa verið birtar á Umræðunni

Umræðan: Verum vakandi