Einstaklingar


Viðskiptavinum Landsbankans hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum og hefur bankinn verið með hæstu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði fimm ár í röð. Landsbankinn mældist efstur í könnun Gallup á ánægju viðskiptavina á bankamarkaði í desember 2018.*

Fara neðar
Markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði mældist 37,8% á árinu 2018 í könnunum Gallup og hefur hún því aukist um 10 prósentustig frá árinu 2008. Um leið hefur ánægja með þjónustuna aukist og traust til bankans vaxið.
Markaðshlutdeild - Einstaklingsmarkaður
Heimild: Gallup

Fjöldi nýjunga í stafrænni þjónustu

Á árinu 2018 kynnti bankinn fjölda nýjunga í stafrænni þjónustu við einstaklinga, þ. á m. nýtt Landsbankaapp, greiðslumat og umsóknarferli vegna íbúðalána var gert aðgengilegt á netinu, opnað var fyrir erlendar greiðslur í netbankanum og stofnun viðskipta gerð möguleg í appi og á vef Landsbankans. Nánar er fjallað um nýjungar í stafrænni þjónustu í kaflanum um betri bankaviðskipti.

Töluverð aukning á útlánum til íbúðakaupa

Landsbankinn lánaði alls um 130 milljarða króna í ný íbúðalán á árinu 2018, samanborið við 98 milljarða króna árið 2017. Umsvif bankans á íbúðalánamarkaði voru því mikil, þrátt fyrir harða samkeppni. Skýringin er annars vegar sú að fasteignaviðskipti hafa aukist og fasteignaverð hefur hækkað ásamt því að algengara er að íbúðalán séu endurfjármögnuð. Hins vegar er skýringanna að leita í því að Landsbankinn leggur áherslu á að veita viðskiptavinum vandaða ráðgjöf og skjót og fagleg vinnubrögð við lánveitingar.

Markaðshlutdeild Landsbankans í nýjum íbúðalánum var 26% á árinu 2018 en var 27% árið 2017.

Markaðshlutdeild í nýjum íbúðalánum 2018

26%
Ný íbúðalán (ma. kr.)
 

Mun meiri eftirspurn eftir óverðtryggðum lánum

Greinilegt er að viðskiptavinir sækjast í auknum mæli eftir óverðtryggðum lánum, en árið 2018 voru 51% nýrra íbúðalána óverðtryggð og 49% verðtryggð. Þetta er mikil breyting frá árinu 2017 en það ár voru 74% nýrra íbúðalána bankans verðtryggð og 26% óverðtryggð.

Viðbótarlán nýtist vel við fyrstu kaup

Landsbankinn lánar fyrir allt að 85% af kaupverði íbúðarhúsnæðis. Lánað er fyrir allt að 70% af kaupverði til allt að 40 ára og einnig er boðið upp á 15% viðbótarlán. Viðbótarlánið nýtist aðallega þeim sem eru að fjárfesta í sinni fyrstu fasteign, einkum ungu fólki, enda getur það reynst mikil áskorun fyrir ungt fólk að greiða útborgun í fyrstu fasteign.

Alls skráði Landsbankinn um 8.300 ný íbúðalán á árinu 2018 til um 5.200 einstaklinga. Er þá bæði átt við ný lán og lán vegna endurfjármögnunar.

Umfjöllun um ungt fólk og íbúðamarkaðinn


  • Á Umræðunni er að finna umfjöllun um íbúðamál ungs fólks, kosti þess að leigja og kaupa, húsnæðissparnað og viðbótarlífeyrissparnað.

Umræðan: Ungt fólk og íbúðamarkaðurinn

Ekkert lát á vexti Aukakróna

Fríðindakerfi Landsbankans, Aukakrónur, vex á hverju ári og var árið 2018 engin undantekning. Viðskiptavinir með kreditkort sem eru tengd við Aukakrónukerfið safna Aukakrónum af allri innlendri veltu, annars vegar sem hlutfall af veltu og hins vegar í formi endurgreiðsluafsláttar hjá yfir 260 samstarfsaðilum um allt land. Yfir 66.000 viðskiptavinir eiga nú Aukakrónur og söfnuðu þeir á árinu yfir 383 milljónum Aukakróna.

Með tilkomu Landsbankappsins voru gerðar breytingar á viðmóti Aukakróna til að auðvelda notkun og tryggja aukið aðgengi og sýnileika fríðindanna fyrir viðskiptavini. Óhætt er að segja að breytt viðmót hafi heppnast vel því samtals notuðu viðskiptavinir 313 milljónir Aukakróna til að greiða fyrir fjölbreytta þjónustu og vörur hjá samstarfsaðilum Aukakróna.

Mikil ánægja ríkir með fríðindakerfið meðal viðskiptavina og reglubundnar kannanir sýna að notkun Aukakróna hefur jákvæð áhrif á viðskiptasambandið á milli Landsbankans og viðskiptavina.

Söfnun Aukakróna árið 2018

Aukakrónusöfnun
Aukakrónunotkun

360° ráðgjöf og persónusniðin skýrsla

360° ráðgjöf Landsbankans er heildstæð fjármálaráðgjöf sem boðið er upp á í útibúum Landsbankans. Ráðgjöfin hefur staðið viðskiptavinum Landsbankans til boða frá árinu 2015 en í október 2018 var 360° ráðgjöfinni breytt á þann hátt að nú er notast við persónusniðin gögn viðskiptavina, að fengnu samþykki þeirra. Með því móti er hægt að taka saman yfirlit yfir þróun fjármála viðkomandi þrjú ár aftur í tímann og flétta upplýsingarnar myndrænt inn í ráðgjöfina. Þessi nálgun dýpkar ráðgjöfina, gerir hana enn nákvæmari og veitir góða innsýn í hvort staðan sé í samræmi við fjárhagsleg markmið eða hvort tækifæri séu til að gera betur. Að lokinni 360° ráðgjöf eru viðskiptavinir spurðir hvernig þeim líkaði þjónustan og hefur ánægja með 360° ráðgjöfina mælst mikil allt frá upphafi. Í lok árs 2018 fékk 360° ráðgjöf 4,6 af 5 í einkunn hjá viðskiptavinum.

Ánægja viðskiptavina með 360° ráðgjöf

4,6 af 5í einkunn
Hús

Sterk staða á bílalánamarkaði

Töluverður samdráttur varð í bílasölu á árinu 2018 en samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu voru 17.974 fólksbílar nýskráðir á árinu 2018, sem er um 15,6% samdráttur frá fyrra ári. Jafnframt dróst nýskráning notaðra fólksbifreiða umtalsvert saman en alls voru rúmlega 3.200 notaðar bifreiðar nýskráðar á Íslandi árið 2018.

Á undanförnum árum hafa heildarútlán vegna bílakaupa aukist í takt við aukna sölu bifreiða. Þrátt fyrir þann samdrátt sem varð í sölu fólksbifreiða á árinu 2018 námu útlán Bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans nánast sömu fjárhæð og árið 2017 sem undirstrikar sterka stöðu bankans á þessum markaði.

Ferðaþjónustan mikilvæg sem fyrr

Alls lánaði bankinn um 8,3 milljarða króna til einstaklinga á árinu vegna bílakaupa sem er sambærileg fjárhæð og 2017. Ný lán til fyrirtækja á bíla- og tækjalánamarkaði námu um 24,8 milljörðum króna á árinu 2018, sem er einnig sambærilegt við árið 2017, en umsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu eru þar enn mest áberandi.

Bókfært virði útlánasafns Bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans var 52,7 milljarðar króna í árslok 2018 samanborið við 48,4 milljarða króna í lok árs 2017, sem er um 8,9% aukning á milli ára. Um þriðjungur var lán til einstaklinga en tveir þriðju hlutar voru lán til fyrirtækja.

Bíla- og tækjafjármögnun Landsbankans aðstoðar einstaklinga og fyrirtæki við að fjármagna kaup á nýjum og notuðum bifreiðum, mótorhjólum, ferðavögnum, vélum og tækjum.

Hlutdeild í nýjum bílalánum til einstaklinga 2018

36,3%
Heimild: Kannanir Gallup frá desember 2018 og janúar 2019
*Ekki mældist marktækur munur milli Landsbankans og þess banka sem kom næstur.