Markaðir


Umfang eignastýringar Landsbankans jókst á árinu 2018. Landsbankinn var með 20% heildarhlutdeild á verðbréfamarkaði þar sem átta aðilar keppa.

Fara neðar
Kauphöll
Efnahagsumhverfið á Íslandi hefur á marga mælikvarða verið afar hagfellt síðustu ár. Lág verðbólga og kröftugur hagvöxtur hefur þó ekki skilað sér í almennri hækkun hlutabréfaverðs.

Vönduð og alhliða eignastýringarþjónusta

Landsbankinn býður viðskiptavinum sínum upp á alhliða eignastýringarþjónustu sem gagnast jafnt einstaklingum sem eru að byrja að byggja upp eignasafn sem og eigendum stærri eignasafna. Bankinn veitir ráð um og sér um lausafjárstýringu fyrir fyrirtæki, veitir fagfjárfestum heildstæða ráðgjöf varðandi val á fjárfestingarkostum og svo má áfram telja. Landsbankinn býður úrval kosta sem henta ólíkum þörfum, hvort sem fjármagnið er í stýringu til lengri eða skemmri tíma.

Líkt og undanfarin ár jókst umfang eignastýringar Landsbankans. Í árslok 2018 voru um 438 milljarðar króna* í stýringu hjá samstæðu bankans, samanborið við 417 milljarða króna* í árslok 2017.

*Að meðtöldum lífeyrissparnaði.

Eignasafn sem byggt er upp af mörgum ólíkum fjárfestingarkostum, innlendum og erlendum, felur í sér mun minni áhættu en fáir skyldir eða eðlislíkir kostir. Eignadreifing getur því verið mjög vænleg leið til árangurs.
Heildareignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans (ma.kr.)*
*Að meðtöldum lífeyrissparnaði.

Ábyrgar fjárfestingar á alþjóðlegum vettvangi

Landsbankinn leggur mikla áherslu á að bjóða upp á gott vöruúrval þannig að viðskiptavinir finni eitthvað við sitt hæfi, allt eftir þörfum og aðstæðum. Þetta gildir einnig um vöruúrval bankans hvað erlendar fjárfestingar varðar. Landsbréf hf., dótturfélag bankans, býður upp á erlenda verðbréfasjóði og Landsbankinn er auk þess í samstarfi við fjölmörg þekkt erlend sjóðastýringarfyrirtæki. Meðal samstarfsaðila bankans eru AllianceBernstein, BlackRock, Carnegie Funds, T. Rowe Price Funds, UBS og Axa Investment.

Árið 2018 gerði Landsbankinn samstarfssamning við alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið LGT Capital Partners. Samningurinn gerir viðskiptavinum Landsbankans kleift að fjárfesta í fjölbreyttum fjárfestingasjóðum LGT Capital Partners þar sem m.a. er lögð áhersla á sérhæfðar fjárfestingar, eignadreifingu og ávöxtun lausafjár með sjálfbærni að leiðarljósi.

Frá því að Landsbankinn setti sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar árið 2013 hefur verið unnið markvisst að innleiðingu hennar. Tilgangurinn er að gera bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir.

Á árinu 2018 var markvisst unnið að því að efla og dýpka þekkingu sérfræðinga bankans á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Allir sjóðsstjórar bankans, sem taka ákvarðanir um fjárfestingar, hafa lokið námi á vegum PRI sem eru alþjóðleg samtök fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar. Einnig hefur markvisst verið unnið að fræðslu um græn skuldabréf. Bankinn hefur þannig byggt upp sérfræðiþekkingu innanhúss sem hefur verið nýtt til að fræða helstu útgefendur um þessa áhugaverðu nálgun. Landsbankinn spáir vexti í grænum skuldabréfum á næstu misserum.

Frá því að Landsbankinn setti sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar árið 2013 hefur verið unnið markvisst að innleiðingu hennar.
Á árinu 2018 var Landsbankinn með leiðandi 20% heildarhlutdeild á verðbréfamarkaði þar sem átta aðilar keppa.

Lífeyrissparnaður í stýringu*

145milljarðar króna
*Að meðtalinni Lífeyrisbók.

Eignir í stýringu*

438milljarðar króna
*Að meðtöldum lífeyrissparnaði.

Hlutdeild í Kauphöll

20%af heildarveltu

Mikilvæg viðskiptavakt

Það er lykilatriði fyrir innlendan markað að til staðar sé öflug viðskiptavakt með bréf helstu útgefanda. Á hlutabréfamarkaði sinnir Landsbankinn nú samningsbundinni viðskiptavakt með hlutabréf Arion banka, Eimskips, Heimavalla, Sýnar, Icelandair, Marels, Festi, Origo, Regins, Reita, Símans, Sjóvá, Skeljungs og VÍS. Þá er Landsbankinn aðalmiðlari og viðskiptavaki með skuldabréf útgefin af ríkissjóði, Íbúðalánasjóði, Lánasjóði sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Landsbankinn er einnig viðskiptavaki með sértryggð skuldabréf útgefin af Arion banka og Íslandsbanka.

Nýjar viðskiptavaktir á árinu voru með skuldabréf Orkuveitunnar og Almenna leigufélagsins og með hlutabréf í Heimavöllum og Arion banka.

Þá spilar Landsbankinn mjög stórt hlutverk sem einn af þremur viðskiptavökum með íslensku krónuna á millibankamarkaði.

Öflug fyrirtækjaráðgjöf

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans kom árið 2018 að fjölmörgum viðskiptum sem tengdust bæði skráðum og óskráðum fyrirtækjum. Í ferðaþjónustu veitti bankinn ráðgjöf við sölu á Hótel Kötlu til KEA hótela, auk þess að veita eigendum Hertz á Íslandi ráðgjöf í tengslum við sölu 40% eignarhlutar til Horns III fjárfestingarsjóðs. Meðal annarra viðskipta sem nefna má var umsjón með sölu á 9,2% eignarhlut Landsbankans í Eyri undir lok árs. Á árinu var félagið Heimavellir skráð í kauphöll og hafði Landsbankinn umsjón með skráningu og almennu útboði sem fór fram í aðdraganda skráningarinnar. Fyrirtækjaráðgjöf hafði jafnframt umsjón með kaupum Regins á eftirstandandi eignarhlut í fasteignafélaginu FM-húsum.

Vestmannaeyjar sólsetur

Góð þjónusta og vönduð ráðgjöf um lífeyrissparnað

Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á að kynna viðskiptavinum kosti lífeyrissparnaðar Landsbankans. Bankinn býður upp á fjölbreytta valkosti í lífeyrissparnaði sem henta ólíkum markmiðum viðskiptavina. Má þar nefna Lífeyrisbók Landsbankans og ávöxtunarleiðir Íslenska lífeyrissjóðsins sem er í rekstri hjá bankanum. Þrátt fyrir harða samkeppni á markaði hefur viðskiptavinum fjölgað jafnt og þétt á liðnum árum. Á árinu 2018 voru rúmlega 15.000 virkir greiðendur í Lífeyrisbók Landsbankans og um 14.000 virkir greiðendur til Íslenska lífeyrissjóðsins. Á árinu 2018 voru gerðir tæplega 6.000 nýir samningar í viðbótarlífeyrissparnaði og um 1.500 nýir samningar um lögbundinn lífeyrissparnað hjá Íslenska lífeyrissjóðnum. Markaðshlutdeild Landsbankans og Íslenska lífeyrissjóðsins í viðbótarlífeyrissparnaði er um 20%.

Umfjöllun um viðbótarlífeyrissparnað og íbúðakaup á Umræðunni

  • Ein hagstæðasta leiðin til að spara fyrir útborgun fyrir fyrstu íbúð er að skrá sig í viðbótarlífeyrissparnað því slíkan sparnað er hægt að nota skattfrjálst til útborgunar. Á Umræðunni er að finna umfjöllun um viðbótarlífeyrissparnað og íbúðakaup.

Umræðan: Viðbótarlífeyrissparnaður Umræðan: Ungt fólk og íbúðamarkaðurinn
Lífeyrissparnaður í stýringu (ma.kr.)*
*Að meðtalinni Lífeyrisbók.

Erfitt ár á mörkuðum

Þrátt fyrir lága verðbólgu og kröftugan hagvöxt undanfarin ár hefur hlutabréfaverð almennt ekki hækkað og síðustu þrjú ár hafa verið mögur á íslenska hlutabréfamarkaðnum.

Árið 2018 stóð Úrvalsvísitala hlutabréfa, að teknu tilliti til arðgreiðslna (OMXI8GI), nánast í stað en Úrvalsvísitala hlutabréfa með vægisþaki (OMXICAP) lækkaði um 4,28%. Að teknu tilliti til arðgreiðslna hækkuðu hlutabréf Haga mest, um 33,3%, en hlutabréf Sýnar lækkuðu mest, um 38,3%.

Erlendir hlutabréfamarkaðir áttu allir erfitt ár og ávöxtunartölur þeirra voru neikvæðar. Sérstaklega kom desembermánuður illa út. Heimsvísitala erlendra hlutabréfa (MSCI World Index) lækkaði um 10,4% á árinu, mælt í Bandaríkjadal.

Íslenska krónan lækkaði um rúmlega 11% gagnvart Bandaríkjadal á árinu 2018 og tæplega 7% gagnvart evru. Á skuldabréfamarkaði hækkaði vísitala verðtryggðra skuldabréfa (NOMXIREAL) um 8,3% á meðan vísitala óverðtryggðra skuldabréfa (NOMXINOM) hækkaði um 2,7%.

Hærri vextir og verðbólga

Eftir rúmlega fjögurra ára tímabil lágrar verðbólgu hér á landi jókst verðbólga undir lok síðasta árs og mældist hærri en verðbólgumarkið Seðlabankans. Í desember 2018 mældist ársverðbólga 3,7% en verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% verðbólga á tólf mánuðum. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands brást við þessari þróun með því að hækka stýrivexti um 0,25% á árinu, upp í 4,5%.

Síðastliðið ár litaðist af mikilli óvissu um rekstrarumhverfi flugfélaganna Icelandair og WOW air, ásamt hækkandi verðbólgu. Þrátt fyrir að WOW air sé ekki skráð félag höfðu fréttir af því mikil áhrif á markaðinn.

Seðlabankinn aflétti að hluta höftum á innflæði erlends fjármagns í nóvember og í desember kom fram frumvarp um að heimila losun allra aflandskrónueigna. Tvö ný félög voru skráð á íslenskan hlutabréfamarkað, Arion banki og Heimavellir. Á árinu voru kaup N1 á Festi samþykkt en sameinuð félög ganga nú undir nafninu Festi. Kaup Haga á Olís gengu einnig í gegn á árinu.

Gert ráð fyrir hóflegum hagvexti

Gert er ráð fyrir að það hægi nokkuð á hagvexti árið 2019 eftir kröftugan hagvöxt síðustu ára og búast má við að verðbólgan verði nokkuð yfir verðbólgumarkmiðinu um skeið. Ekki er þó gert ráð fyrir samdrætti í hagkerfinu heldur hóflegum hagvexti næstu árin. Í byrjun árs 2019 munu tveir þættir hafa afgerandi áhrif á hlutabréfamarkaði. Niðurstaða kjarasamninga hefur mikið að segja um afkomu félaga með innlendan launakostnað og niðurstaða í kaupum Indigo á minnihluta hlutafjár WOW air mun hafa áhrif á innlenda ferðaþjónustu almennt og Icelandair sérstaklega.

Talsverðar breytingar framundan

Árið 2018 var litað af sameiningum félaga á innlendum markaði, N1 og Festar, Hagar og Olís og loks Vodafone og 365. Gert er ráð fyrir að samlegðaráhrifin fari að sjást í rekstri þeirra á árinu. Marel stefnir á tvískráningu erlendis á árinu 2019 og verður spennandi að sjá hvernig til tekst en gera má ráð fyrir að vel heppnuð skráning muni hafa jákvæð áhrif á önnur félög á markaði. Áhugavert verður að sjá hvort skráðum félögum muni halda áfram að fjölga á árinu og hvort einhverjar breytingar verði á eignarhaldi ríkisins í Landsbankanum og Íslandsbanka. Aflétting innflæðishafta er yfirvofandi og munu áhrifin líklega verða jákvæð fyrir markaðinn. Í haust verður Ísland svo tekið inn í alþjóðlegar Frontier Markets vísitölur sem mun væntanlega hafa jákvæð áhrif á áhuga erlendra fjárfesta.


Hagspá

  • Þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans til ársins 2021 er birt á Umræðunni.

Hagspá Hagfræðideildar Landsbankans