Mannauður og samfélag

Fara neðar

Mannauður


Mannauðsstefna Landsbankans endurspeglar þá áherslu sem bankinn leggur á gott starfsumhverfi þar sem starfsánægja og öflug þekkingarmiðlun er í fyrirrúmi. Jafnréttismál voru áberandi á árinu og bar hæst innleiðing á Jafnréttisvísi Capacent og vinna við jafnlaunavottun.

Fara neðar

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á launajafnrétti og jöfn starfstækifæri og vill tryggja að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. Landsbankinn hefur í tvígang hlotið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC og tekur vinna við lögbundna jafnlaunavottun við hlutverki jafnlaunaúttekta. Með þátttöku í Jafnréttisvísi Capacent á árinu 2018 var markvisst horft til fleiri þátta en launajafnréttis og kom allt starfsfólk bankans að því verkefni.

Kynjahlutfall hjá Landsbankanum, nokkur dæmi

 
Karlar
 
Konur
Framkvæmdastjórn
57%
43%
Útibússtjórar
58%
42%
Forstöðumenn
77%
23%
Deildarstjórar
42%
58%
Sérfræðingar
50%
50%
Þjónustufulltrúar og gjaldkerar
7%
93%

Jafnlaunavottun

Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með innleiðingu jafnlaunastaðals hefur Landsbankinn komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Vinna við innleiðingu jafnlaunavottunar stóð yfir allt árið og naut bankinn leiðsagnar ráðgjafa frá Attentus í undirbúningnum. Lokaúttekt Landsbankans fór fram í janúar 2019 og framkvæmdi BSI á Íslandi, faggild skoðunarstofa, úttektina. Í lokaúttektinni var staðfest að öll skilyrði staðalsins væru uppfyllt og mælt var með að bankinn fengi vottun. Gert er ráð fyrir endanlegri staðfestingu í mars 2019.

Hluti af því vinnulagi sem bankinn mun temja sér með viðmiðum jafnlaunavottunar felst í útreikningi á launamun kynjanna innan bankans. Landsbankinn mun upplýsa starfsfólk um niðurstöðuna með reglubundnum hætti og árlega í ársskýrslu og samfélagsskýrslu bankans. Aðhvarfsgreining desemberlauna 2018 leiðir í ljós 1,4% launamun kynjanna, karlar hærri en konur.

Kynjahlutfall í Landsbankanum - heild

Jafnréttisvísir Capacent með þátttöku alls starfsfólks

Í september 2018 varð Landsbankinn aðili að Jafnréttisvísi Capacent. Samkomulag um að Landsbankinn tæki þátt í verkefninu var undirritað í febrúar og kom allt starfsfólk bankans að verkefninu á einhverju stigi. Jafnréttisvísirinn er viðamikið verkefni þar sem staða jafnréttismála innan bankans er metin með ítarlegri greiningu og skýr markmið mótuð í framhaldinu. Markmiðið er að stuðla að allsherjar vitundarvakningu um jafnréttismál.

Ráðgjafar lögðu mat á stöðu Landsbankans í jafnréttismálum og nýttu til þess fyrirliggjandi upplýsingar, samtöl við starfsfólk, kannanir meðal starfsfólks, úttekt á starfsaðstæðum og heimsóknum á starfsstöðvar. Leitast var við að ná heildrænu sjónarhorni á jafnréttismál og eru lykilþættir sem horft er til menning, samskipti og vinnuumhverfi, stefna og skipulag, skipurit, laun og fyrirmyndir. Ekki síst er lögð áhersla á að fá upp á yfirborðið þá ómeðvituðu kynbundnu fordóma sem oft leynast í menningu, umhverfi og skipulagi fyrirtækja.

Niðurstöður greiningarvinnu voru kynntar á starfsdegi starfsmanna í apríl og í kjölfarið var unnið með niðurstöðurnar í vinnustofum þar sem allt starfsfólk tók þátt. Starfsfólkið kom fram með um 1.000 úrbótatillögur og í kjölfar úrvinnslu lágu fyrir um 250 ólíkar tillögur um hvernig bæta mætti jafnrétti innan Landsbankans.

Framkvæmdastjórn Landsbankans valdi úr tillögunum og mótaði verkefni og markmið til ársins 2022, sem sett eru fram í 6 flokkum:

 • Framgangs- og mentorakerfi, að koma á fót úrræðum fyrir starfsfólk til að styrkja eigin starfsþróun.
 • Fyrirmyndir, kynjaskipting þeirra sem koma fram fyrir hönd bankans.
 • Menning og umhverfi, að ferlar varðandi EKKO, sjá umfjöllun neðar, verði skýrir og trúverðugir og starfsfólk fái reglulega fræðslu um EKKO.
 • Fræðsla og umhverfi, viðburðir um jafnréttismál og fræðsluátak meðal starfsfólks.
 • Ráðningarferli, að vinna að því að útrýma ómeðvituðum fordómum úr ferlinu.
 • Jöfn staða kynja, að ná 40/60 kynjahlutfalli í öllum stjórnunarlögum.

Megináherslur í jafnréttismálum eru:

 • Landsbankinn er vinnustaður þar sem karlar og konur eiga jafna möguleika til starfa og stjórnarsetu.
 • Landsbankinn stefnir að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna og að ákveðin störf flokkist ekki sem sérstök karla- eða kvennastörf.
 • Landsbankinn greiðir konum og körlum jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf.
 • Landsbankinn er vinnustaður þar sem starfsmenn geta samræmt vinnu og einkalíf.
 • Landsbankinn líður ekki einelti, fordóma, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni né kynbundið ofbeldi.
 • Landsbankinn gætir þess að starfsfólk hafi sömu tækifæri til starfsþróunar, náms og fræðslu.

Uppfærð jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna Landsbankans og aðgerðaáætlun stefnunnar var tekin til skoðunar og endurmats á árinu. Engar stórar breytingar voru gerðar á megináherslum stefnunnar en meira er gert úr markvissum aðgerðum sem geta jafnað stöðu karla og kvenna. Viðbragðsáætlun vegna áreitni og eineltis hefur verið uppfærð og kynnt á fundum með öllum stjórnendum bankans. Í upphafi árs 2019 verða fundir með öllu starfsfólki þar sem stefnan og viðbragðsáætlun verða kynnt.

Fræðsla um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi (EKKO)

Haustið 2018 voru haldnar vinnustofur fyrir stjórnendur bankans um viðbrögð við einelti, kynbundnu misrétti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO). Í framhaldinu fá allir starfsmenn bankans fræðslu um málefnið á vormánuðum 2019.

Markmiðið með fræðsluerindunum er að kynna stefnu, forvarnir og verkferla sem unnið verður eftir innan bankans í framtíðinni. Við innleiðingu á nýjum verkferlum er mikilvægt að tryggja sameiginlegan skilning starfsfólks á hugtökum og aðferðafræði. Til þess að auka virði og gagnsemi stefnu, skiptir fræðsla höfuðmáli.

Fyrirtækjamenning

Hjá Landsbankanum er markvisst unnið að því að styðja fyrirtækjamenningu þar sem viðskiptavinir eru í fyrirrúmi, samstarf er öflugt, framfarir stöðugar og allir starfsmenn taka ábyrgð á árangri. Öflugir og sterkir stjórnendur gegna lykilhlutverki í þessari framtíðarsýn, bæði sem virkir þátttakendur og sem fyrirmyndir.

Unnið er eftir aðferðafræði árangursstjórnunar með skýra áherslu á markmiðasetningu starfseininga og starfsmanna, eftirfylgni markmiða og mat á því hvernig árangur eininga hefur áhrif á heildarmarkmið bankans. Til að fylgja markmiðasetningu einstaklinga eftir er notað frammistöðumatskerfi sem byggir á frammistöðusamtölum milli starfsmanns og yfirmanns.

Starfsandinn aldrei mælst betri: Vinnustaðagreining og bankapúlsinn

Á fyrsta fjórðungi á hverju ári framkvæmir Landsbankinn ítarlega vinnustaðagreiningu og aðra umfangsminni á haustin. Sú síðarnefnda kallast Bankapúlsinn en markmið hans er að fylgja eftir þeim umbótamarkmiðum sem sett eru í kjölfar vinnustaðagreiningarinnar. Saman gefa þessar kannanir mikilvægar vísbendingar um viðhorf starfsmanna til vinnustaðar síns. Niðurstöður Bankapúlsins, sem birtar voru í október 2018, sýna að starfsánægja og stolt innan bankans er mikil. Einnig er starfsandinn mjög góður og hefur aldrei mælst betri en nú.

Í EKKO fræðslunni verður farið yfir eftirfarandi þætti:

 • Tilgang stefnu og skilgreiningar (hugtakavinna).
 • Algengar orsakir, birtingarmyndir og þróun (hvað flokkast sem einelti eða áreitni).
 • Afleiðingar eineltis, ofbeldis eða áreitni.
 • Rétt viðbrögð (hvernig er best að mæta einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað).
 • Forvarnarvinna starfsfólks (hvernig er best að koma í veg fyrir óeðlileg samskipti)

Heildaránægja*

*Á heildina litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu hjá Landsbankanum.

Stolt*

*Ég er stolt(ur) af því að vinna hjá Landsbankanum.

Starfsandi*

*Mér finnst góður starfsandi í minni deild / mínu útibúi.

Áskoranir í mannauðsmálum

Fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir ýmsum áskorunum í mannauðsmálum. Landsbankinn þarf að vera eftirsóknarverður vinnustaður til framtíðar og brúa bilið sem kann að myndast með breyttri aldurssamsetningu vinnuafls. Störfin eru að breytast vegna sjálfvirknivæðingar og huga þarf að færniþróun starfsfólks til að tryggja rétta hæfni og kunnáttu í hverju starfi.

Sækjum þekkinguna

Árið 2018 var markvisst unnið að því að koma á framfæri skilaboðum um mikilvægi og ávinning þess að afla sér þekkingar til sjálfseflingar í lífi og starfi. Fræðslustarfið tók mið af þessu og lögð var áhersla á að starfsfólk fengi tækifæri til að greina eigin stöðu og stuðla að eigin starfsþróun.

Til að styðja við þetta var meðal annars boðið upp á náms- og starfsráðgjöf fyrir starfsfólk. Í ráðgjöfinni er lögð áhersla á upplýsingamiðlun, fræðslu og leiðsögn sem miðar að því að skoða hentuga námsmöguleika og leiðir til símenntunar. Auk þess stóð starfsfólki til boða að sækja námskeið með einstaklingsviðtölum og hópþjálfun með eftirfylgni yfir lengra tímabil.

Aldrei hafa verið fleiri leiðir í boði til að sækja þekkingu og var starfsfólk hvatt til þess að nýta þær til að uppfæra þekkingu sína reglulega og mæta þannig kröfum í síbreytilegu starfsumhverfi. Rafrænum leiðum til að læra hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og nýtti starfsfólk sér þær í auknum mæli á árinu 2018 hvort sem um var að ræða fræðsluefni frá erlendum aðilum, samstarfsaðilum hérlendis eða innan bankans.

Gagnlegar spurningar þegar kemur að eigin faglegri og persónulegri þróun:

 • Hver eru markmiðin mín og hvert stefni ég?
 • Hvað kann ég og hvar liggja styrkleikar mínir?
 • Hvaða færni og þekkingu þarf ég að uppfæra?
 • Hvaða leiðir get ég farið til að læra það sem ég þarf að kunna?
 • Hvernig get ég verið viss um að það sem ég læri sé „rétt“?

Fræðslustarf í tölum
2.800 Þátttakendur í fræðsluviðburðum hjá Landsbankanum á árinu 2018 voru 2.800 talsins.
137 Boðið var upp á 137 fræðsluviðburð hjá Landsbankanum á árinu 2018.
3 Hver starfsmaður bankans sótti að meðaltali 3 viðburði í fræðsludagskránni.
4,5 Hver starfsmaður lauk að meðaltali 4,5 rafrænum námskeiðum.

Öflugt fræðslustarf

Áhersla er lögð á að bjóða upp á starfsumhverfi sem hvetur starfsfólk til að læra nýja hluti og miðla þekkingu sinni. Starfsfólk er hvatt til að sækja fræðslu hvort sem er utan eða innan bankans.

Hjá Landsbankanum býðst starfsfólki að sækja fjölbreytta fræðsludagskrá. Árið 2018 var boðið upp á 137 viðburð og voru þátttakendur um 2800. Hver starfsmaður sótti að meðaltali um 3 viðburði í fræðsludagskránni.

Á árinu var tekið í notkun nýtt fræðslukerfi sem gerði bankanum kleift að beina fræðslu til starfsfólks á markvissari hátt og bjóða upp á rafræna fræðslu í auknum mæli. Þannig hefur starfsfólk betri aðgang að fræðslu innan bankans og möguleika á að sækja fræðslu þegar og þar sem hentar. Boðið var upp á 24 rafræn námskeið í fræðsludagskránni og luku um 4.600 starfsmenn þátttöku. Lauk hver starfsmaður að meðaltali um 4,5 rafrænum námskeiðum.

Í fræðsludagskrá er skyldufræðsla fyrir starfsfólk. Sé litið til fræðslu sem er ekki skyldufræðsla sóttu 88% starfsmanna bankans sér einhverja starfstengda símenntun á vegum bankans á árinu.

Starfsfólk er ekki aðeins duglegt að sækja fræðslu sem er í boði heldur er það öflugt að miðla þekkingu sín á milli. Alls komu um 40 starfsmenn að kennslu á viðburðum og gerð rafræns fræðsluefnis í fræðsludagskrá á árinu.

Fræðslustarf Landsbankans hlýtur gæðavottun

Fræðslustarf Landsbankans fékk á árinu EQM gæðavottun. EQM stendur fyrir European Quality Mark og er vottun fyrir fræðsluaðila utan hins formlega skólakerfis í Evrópu. Vottunin er ákveðinn gæðastimpill á það fræðslustarf sem hefur farið fram í bankanum síðustu ár þar sem stöðugt er unnið að umbótum og því markmiði að sú fræðsla sem í boði er skili sem mestum árangri.


Þátttaka starfsfólks í símenntun árið 2018

Meginverkefni árið 2018:

 • Samstarf við Mími-símenntun um náms- og starfsráðgjöf.
 • Íslenska fyrir erlent starfsfólk.
 • Stjórnendaþjálfun með áherslu á stuðning við starfsþróun og eflingu starfsfólks.
 • Aukið framboð rafrænnar fræðslu.