Samfélagsábyrgð


Samfélagsábyrgð er mikilvægur þáttur í starfsemi Landsbankans og áhersla er lögð á að hún sé samþætt stefnumörkun bankans í heild. Á árinu 2018 var tekin ákvörðun um að Landsbankinn myndi fylgja þremur Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem og nýjum viðmiðum UNEP-FI um ábyrga bankastarfsemi.

Fara neðar

Framtíðarsýn í samfélagsábyrgð

Samfélagsstefna Landsbankans miðar að því að stuðla að sjálfbærni í íslensku samfélagi, vera hreyfiafl og starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum við rekstur bankans.

Við ætlum að eiga frumkvæði að samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og samtök um þróun á atvinnuháttum og innviðum sem stuðla að aukinni sjálfbærni íslensk atvinnulífs og samfélags með það að markmiði að tækifæri Íslands í þessu sambandi verði nýtt með sem bestum hætti fyrir land og þjóð til framtíðar. Saman sköpum við ný viðskiptatækifæri með áherslu á sjálfbærni.

Á árinu 2018 var tekin ákvörðun um að Landsbankinn myndi fylgja þremur Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem og nýjum viðmiðum UNEP-FI um ábyrga bankastarfsemi sem ætlað er að tengja bankastarfsemi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Samfélagsábyrgð: Umhverfi, samfélag, hagkerfi

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Landsbankinn ætlar í sinni starfsemi að leggja áherslu á þrjú af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna: markmið 5 um jafnrétti kynjanna, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt og markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru kynnt árið 2015 en þau komu í stað Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem sett voru um aldamótin. Heimsmarkmiðin eru fleiri og ítarlegri en Þúsaldarmarkmiðin og taka á þeim fjölmörgu áskorunum sem allur heimurinn stendur frammi fyrir.


Heimsmarkmið 5 - Jafnrétti kynjanna

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og hafi sömu starfstækifæri. Bankinn hefur það að markmiði að hlutur hvors kyns um sig í forystusveit bankans verði aldrei minni en 40%. Landsbankinn hefur í tvígang hlotið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC og vann á árinu 2018 að því fá lögbundna jafnlaunavottun. Lokaúttekt Landsbankans fór fram í janúar 2019. Bankinn uppfyllti öll skilyrði og gert er ráð fyrir endanlegri staðfestingu á næstu vikum. 

Árið 2011 skrifaði Landsbankinn undir Jafnréttissáttmálann (Women’s Empowerment Principles – Equality means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins.

Bankinn varð aðili að Jafnréttisvísi Capacent á árinu 2018 þar sem markvisst var horft til fleiri þátta en launajafnréttis og kom allt starfsfólk bankans að verkefninu. Með jafnréttisvísinum var staða jafnréttismála innan bankans metin með ítarlegri greiningu og skýr markmið mótuð í framhaldinu. Leitast var við að ná heildrænu sjónarhorni á jafnréttismál og eru lykilþættir sem horft er til menning, samskipti og vinnuumhverfi, stefna og skipulag, skipurit, laun og fyrirmyndir. 

Lesa nánar um jafnréttismál í Landsbankanum í mannauðskafla ársskýrslunnar.


Heimsmarkmið 8 - Góð atvinna og hagvöxtur

Heimsmarkmiði 8 er ætlað að stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Landsbankinn gerir það á ýmsan hátt í starfsemi sinni og má nefna eftirfarandi þætti.

Landsbankinn veitir litlum og meðalstórum fyrirtækjum aðgang að fjármálaþjónustu, m.a. með fjármagni frá Norræna fjárfestingabankanum en Landsbankinn undirritaði nýjan sjö ára lánasamning við NIB árið 2018 til þess að endurlána litlum og meðalstórum fyrirtækjum og umhverfistengdum verkefnum á Íslandi.

Í bankanum hafa atvinnugreinastefnur, sem fela í sér viðmið um samfélagsábyrgð, verið samþykktar fyrir eftirfarandi atvinnugreinar: sjávarútveg, fasteignafélög, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eignarhaldsfélög, ferðaþjónustu, verslun, þjónustu, upplýsingatækni og fjarskipti. Á árinu 2018 lánaði bankinn til verkefna sem minnkuðu losun gróðurhúsalofttegunda, til dæmis með endurnýjun í fiskiskipaflotanum, rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja í landi og átaks bænda um endurnýjun votlendis.

Landsbankinn leggur sitt af mörkum til að bæta aðgengi að banka- og fjármálaþjónustu fyrir alla en bankinn er með stærsta útibúanet landsins og flesta hraðbanka.

Náms- og samfélagsstyrkir Landsbankans hjálpa til við að efla staðbundna menningu, en nánar má lesa um styrkina í kaflanum um samstarf og stuðning.


Heimsmarkmið 12 - Ábyrg neysla og framleiðsla

Heimsmarkmið 12 snýst um að tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur. Landsbankinn stuðlar að ábyrgri neyslu og framleiðslu á ýmsan hátt í starfsemi sinni og hefur víðtæk áhrif út í samfélagið.

Til að stuðla að minni sóun matvæla, minni úrgangi, aukinni endurvinnslu og minni sóun almennt hefur Landsbankinn sýnt hraða þróun í að verða pappírslaus banki, náð að minnka úrgang og sorp í starfsemi sinni og rekur svansvottað mötuneyti fyrir starfsfólk bankans.

Til að draga úr losun efna og efnablandna út í andrúmsloftið, vatn og jarðveg, hefur Landsbankinn boðið einstaklingum upp á hagstæða fjármögnun á vistvænum bílum auk þess sem bankinn hefur minnkað eldsneytisnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda, notar umhverfisvottuð ræstiefni og hreinlætispappír, býður starfsmönnum sínum upp á samgöngustyrki og kolefnisjafnar allar vinnuferðir starfsmanna innanlands sem utan.

Landsbankinn stuðlar að sjálfbæru verklagi í sínum innkaupum og nýtir sér birgja úr nærsamfélaginu en árið 2018 voru 94% af innkaupum bankans hjá innlendum birgjum.

Samfélagsskýrsla Landsbankans hefur verið gefin út árlega frá því árið 2012 og er skrifuð samkvæmt viðmiðum Global ReportingInitiative (GRI). Í umhverfiskafla samfélagsskýrslu Landsbankans er hægt að lesa nánar um þróun pappírsnotkunar, meðhöndlunar sorps, eldsneytisnotkunar, kolefnisjöfnunar og annarra atriða sem tengjast umhverfinu.


Ný viðmið um ábyrga bankastarfsemi

Landsbankinn ákvað í lok árs 2018 að fylgja nýjum viðmiðum UNEP FI um ábyrga bankastarfsemi (Principles for Responsible Banking) sem ætlað er að tengja bankastarfsemi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið.

Verkefnið var kynnt til sögunnar á hringborðsfundi UNEP FI í París í nóvember 2018 og var Landsbankinn fyrsti íslenski bankinn sem tilkynnir þátttöku og í hópi fyrstu aðila að verkefninu á heimsvísu. Viðmiðin hafa verið send til samráðsaðila víðsvegar um heim og fer undirritun fram í september 2019.

Viðmiðin voru mótuð af 28 alþjóðlegum bönkum í samvinnu við UNEP FI (United Nations Environment Programme - Finance Initiative) sem Landsbankinn er nú þegar aðili að. UNEP FI er samstarfsvettvangur Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og um 200 fjármálafyrirtækja þar sem fjallað er um áhrif ákvarðana í fjármálaumhverfinu á umhverfis- og samfélagsmál.

Viðmiðunum er ætlað að vera alþjóðlegur mælikvarði á ábyrga bankaþjónustu og tryggja að bankar skapi verðmæti fyrir bæði hluthafa sína og samfélagið. Þetta er í fyrsta sinn sem settar eru fram alþjóðlegar leiðbeiningar um samþættingu sjálfbærniviðmiða á öllum stigum bankastarfsemi, frá stefnumótun til eignasafna til einstakra viðskipta. Viðmiðin kveða á um gagnsæi og ábyrgðarskyldu og aðilar að þeim skuldbinda sig til að forgangsraða aðkallandi verkefnum, setja sér opinber markmið og sinna upplýsingagjöf um árangur.


Seljalandsfoss

Viðurkenning fyrir samfélagsskýrslu ársins

Samfélagsskýrsla Landsbankans er skrifuð á hverju ári samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI). Skýrslan er ítarleg og inniheldur samanburðarhæfar upplýsingar frá ári til árs. Samfélagsskýrslan gegnir einnig hlutverki framvinduskýrslu til UN Global Compact. Fjallað er um þau verkefni sem bankinn vinnur að sem tengjast samfélagsábyrgð og birtar aðgengilegar upplýsingar um samfélagsstefnu bankans og samfélagsvísa í rekstri hans. Einnig er reynt að veita innsýn í það sem vel er gert og það sem betur má fara.

Í júní 2018 hlaut Landsbankinn viðurkenningu fyrir bestu samfélagsskýrslu ársins en viðurkenningin er veitt af Festu, Stjórnvísi og Viðskiptaráði. Þetta var í fyrsta sinn sem viðurkenningin er veitt. Í niðurstöðu dómnefndar segir m.a. að samfélagsskýrsla Landsbankans sé til fyrirmyndar og af lestri hennar megi ráða að ljóst er að samfélagsstefna bankans sé mótuð með víðtækri aðkomu starfsmanna og að samfélagsábyrgð sé hluti af kjarnastarfsemi bankans. 

Samfélagsskýrsla Landsbankans

Samfélagsskýrsla Landsbankans er rituð árlega samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) og verður birt á vef bankans eigi síðar en 20. mars 2019.

Landsbankinn var eitt þeirra fyrirtækja sem stóðu að stofnun Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, árið 2011. Bankinn hefur verið aðili að UN Global Compact frá árinu 2006. UN Global Compact er samstarfsverkefni Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífsins til að fylgja eftir markmiðum SÞ og snýst um að hvetja fyrirtæki til að sýna samfélagsábyrgð í verki. 

Áhersla á innleiðingu samfélagsábyrgðar í kjarnastarfsemi

Í Landsbankanum hefur undanfarin ár markvisst verið unnið að innleiðingu á stefnu í ábyrgum fjárfestingum en tilgangurinn er að gera bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir. Bankinn fékk aðild að United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI) í byrjun árs 2013. Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af reglum UN PRI. Þau fyrirtæki sem gangast undir reglur UN PRI skuldbinda sig til að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til viðmiða reglnanna í framvinduskýrslu og hefur bankinn skilað slíkri skýrslu til samtakanna undanfarin ár.


Uppbygging þekkingar á málaflokknum ábyrgar fjárfestingar

Á árinu hefur markvisst verið unnið að því að efla og dýpka þekkingu sérfræðinga bankans á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Þannig hafa allir sjóðsstjórar bankans, sem starfa við fjárfestingarákvarðanir, lokið námi á vegum UN PRI. Einnig hefur markvisst verið unnið í fræðslu varðandi nýjan eignaflokk, þ.e. græn skuldabréf. Bankinn hefur þannig byggt upp sérfræðiþekkingu innanhúss sem síðan hefur verið nýtt til að fræða helstu útgefendur um þessa áhugaverðu nálgun og spáir bankinn vexti í eignaflokknum á næstu misserum.

Næstu skref

Bankinn hefur nýlokið yfirferð á stefnu sinni um ábyrgar fjárfestingar sem sett var árið 2013. Stefnan tekur nú bæði mið af því vinnulagi sem hefur mótast á undanförnum árum og einnig þeim áskorunum sem framundan eru. Þannig verður þáttum er varða umhverfismál, félagsleg mál og stjórnarhætti bætt við með skipulögðum hætti þegar fjárfestingarákvarðanir eru teknar hvort sem um óskráð eða skráð félög eða skuldabréf er að ræða.

Viðbótarviðmið við greiningu fjárfestinga

Hagfræðideild Landsbankans hefur undanfarin misseri aflað upplýsinga á skipulagðan máta um starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Um er að ræða staðlaðan, einfaldan spurningalista sem tekur á helstu þáttum samfélagsábyrgðar, umhverfismálum og jafnrétti. Með þessum spurningalista steig Landsbankinn sín fyrstu skref við að afla upplýsinga um hvernig fyrirtæki sem skráð eru á markað haga þessum málum en svörin voru gerð aðgengileg fjárfestum á heimasíðu Hagfræðideildar Landsbankans árið 2017. Að svo stöddu eru spurningarnar einungis til upplýsinga fyrir fjárfesta og tekur deildin ekki efnislega afstöðu til svaranna. Langtímastefnan er að tekið verði meira tillit til þessara þátta í tengslum við mat á fjárfestingarkostum. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni, í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.  • Umfjöllun um græn skuldabréf birtist á Umræðunni í nóvember 2018.

Græn skuldabréf: Fjárfest í grænni framtíð

Landsbankinn stofnaðili Samtaka um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF

Landsbankinn er einn af 23 stofnaðilum IcelandSIF, samtaka um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi. Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, er stjórnarformaður samtakanna sem voru stofnuð árið 2017.

Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Samtökunum er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar fjárfestingar.

Landsbankinn tók þátt í loftslagsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar árið 2015 ásamt 102 öðrum fyrirtækjum. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í tengslum við Parísarfundinn um loftslagsbreytingar og felst í því að fyrirtækin skuldbinda sig til að setja sér markmið og aðgerðaáætlun í samfélagsábyrgð til 10 ára.

Umhverfismálin mikilvæg

Landsbankinn tók þátt í loftslagsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar árið 2015 ásamt 102 öðrum fyrirtækjum. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í tengslum við Parísarfundinn um loftslagsbreytingar og felst í því að fyrirtækin skuldbinda sig til að setja sér markmið og aðgerðaáætlun í samfélagsábyrgð til 10 ára.

Markvisst hefur verið unnið að innleiðingu á flokkun sorps í starfsstöðvum Landsbankans. Innleiðingu er lokið í höfuðstöðvum og í öllum útibúum á höfuðborgarsvæðinu. Búið er að innleiða flokkun í vinnustöðvum á Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi og á árinu 2018 var unnið að innleiðingu á Norðurlandi. Hlutfall flokkaðs úrgangs eykst sífellt og er markmiðið að Landsbankinn verði nær eingöngu með flokkaðan úrgang eftir fimm ár.

Landsbankinn vinnur jafnt og þétt að innleiðingu LED-lýsingar í bankanum en raforkunotkun bankans hefur minnkað til muna undanfarin ár.


Meginmarkmið bankans í umhverfismálum

  • Allar bifreiðar Landsbankans verði vistvænar.
  • Sorpflokkun verði á öllum vinnustöðvum Landsbankans.
  • Landsbankinn takmarki rafmagnsnotkun eins og unnt er.
  • Umhverfisvottaðar vörur verði notaðar í rekstri eins og unnt er.

Dregið úr útblæstri

Útblástur frá bifreiðum bankans minnkaði um 10% á milli áranna 2017 og 2018. Síðustu tvö ár hefur útblástur frá bifreiðum bankans minnkað samtals um rúm 40%. Hlutfall vistvænna bifreiða í bílaflota Landsbankans í lok árs 2018 var 36% en í byrjun árs 2017 voru fjórir vistvænir fólksbílar teknir í notkun. Áætlað er að skipta út fimm eldri bifreiðum fyrir vistvæna bíla. Markmiðið er að allar bifreiðar Landsbankans verði umhverfisvænar árið 2025 og á þessum hraða er vonast til að bankinn nái markmiðinu fyrr.