Landsbankinn styður margvísleg samfélagsverkefni með fjárframlögum úr Samfélagssjóði og með samstarfssamningum. Lögð er áhersla á að stuðningur bankans við samfélagið sé fjölbreyttur og að hann nýtist mörgum.
Landsbankinn styrkir samfélagsverkefni einkum með þrennum hætti. Í fyrsta lagi í gegnum Samfélagssjóð, þar sem engar kröfur eru gerðar á móti styrkjum, í öðru lagi með samstarfssamningum með gagnkvæmum ávinningi og loks fyrir tilstilli útibúa út um allt land sem styðja við bakið á verkefnum í sinni heimabyggð, þ.m.t. íþrótta- og æskulýðsstarf, mannúðarsamtök og frjáls félagasamtök.
Samfélagssjóður Landsbankans gegnir lykilhlutverki í stuðningi bankans við samfélagið. Árið 2018 voru veittir þrenns konar styrkir: námsstyrkir að upphæð sex milljónir, umhverfisstyrkir að upphæð fimm milljónir og samfélagsstyrkir að upphæð fimmtán milljónir, alls 26 milljónir króna.
Bankinn hefur sett sér þá reglu að dómnefndir skuli skipaðar fagfólki að meirihluta og að farvegur fyrir afgreiðslu styrkja sé skýr til þess að viðskiptavinir bankans og aðrir landsmenn hafi jafna möguleika til að sækja um styrki. Lögð er áhersla á að stuðningur við samfélagið sé fjölbreyttur og að hann nýtist mörgum. Landsbankinn leitast við að auka beina þátttöku starfsmanna í samfélagsverkefnum, m.a. með ráðgjöf á ýmsum sviðum sem tengjast fjármálum og nýsköpun.
Landsbankinn er einn af aðalstyrktaraðilum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Bankinn vill styðja við bakið á öflugu slysavarna- og björgunarstarfi um allt land. Slysavarnafélagið Landsbjörg er landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi og ein stærstu sjálfboðaliðasamtök á Íslandi. Markmið starfseminnar er að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum.
Nánar um starf Slysavarnafélagsins Landsbjargar
Nánar um Samtökin 78
Þeir hópar sem fengu hæstu styrkina á árinu 2018 voru Hinsegin félagsmiðstöð S78 – Ungliðar S78, Q – félag hinsegin stúdenta og Hinsegin kórinn.
Nánar um Gleðigöngupottinn 2018
Landsbankinn hefur verið virkur þátttakandi í Menningarnótt og bakhjarl frá upphafi. Markmið bankans er að fjárstuðningur hans renni beint til listamanna og -hópa sem skipuleggja viðburði á Menningarnótt. Til að ná því markmiði var stofnaður sérstakur Menningarnæturpottur á vegum Höfuðborgarstofu og Landsbankans. Markmið hans er að veita frumlegum og sérstökum hugmyndum brautargengi. Styrkumsóknir voru 240 talsins í ár og fengu 25 spennandi verkefni styrki.
Landsbankinn er stoltur bakhjarl tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves. Stuðningur við ungt tónlistarfólk sameinar samfélagsábyrgð bankans og viðleitni til að veita listum og menningu í landinu virkan stuðning. Undanfarin ár hefur Landsbankinn fengið ungt tónlistarfólk til að hita upp fyrir tónlistarhátíðina með útgáfu myndbanda. Í ár urðu Bríet, Huginn og Kælan Mikla fyrir valinu.
Myndböndin ásamt viðtölum við tónlistarfólkið má finna á Airwaves-vef Landsbankans, en það kom einnig fram á „off-venue“ tónleikum í útibúi bankans við Austurstræti og í Stúdentakjallaranum. Báðir tónleikarnir voru vel sóttir og fengu góðar undirtektir.
Landsbankinn hefur undanfarin ár boðið upp á fjármálafræðslu í framhaldsskólum landsins. með það að markmiði að efla fjármálaskilning nemenda og gera þeim betur kleift að greina valkosti í fjármálum og gera áætlanir. Farið var í 51 fjármálafræðsluheimsóknir á árinu í 17 skóla um land allt.
Landsbankinn tekur virkan þátt í verkefninu Fjármálavit sem Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) standa fyrir í samvinnu við aðildarfélögin. Markmiðið er að fræða nemendur tíunda bekkjar í öllum skólum landsins um grunnþætti fjármála og veita innblástur í kennslu um fjármál.
Ellefu doktorsnemar við Háskóla Íslands fengu styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands við úthlutun styrkja úr doktorssjóðum Háskóla Íslands vorið 2018. Sjóðurinn er í umsjá Landsbankans.
Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var settur á laggirnar af Vestur-Íslendingum árið 1964 með því að stofnaðilar lögðu til hans hlutabréfaeign sína í Eimskipafélaginu. Sjóðurinn var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta í rannsóknartengdu námi við Háskóla Íslands.
Landsbankinn er aðalbakhjarl Skólahreysti og leggur keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum.
Vinsældir Skólahreysti hafa aukist ár frá ári. Keppnin var haldin í fjórtánda sinn vorið 2018 með þátttöku 105 grunnskóla af öllu landinu.
Landsbankinn er einn af stofnaðilum Fjártækniklasans ásamt 62 fyrirtækjum, háskólum, samtökum og fleiri aðilum. Fjártækniklasinn hóf starfsemi sína í nóvember 2018. Tilgangur Fjártækniklasans er að efla nýsköpun í fjármálum og gera viðskipti af öllu tagi auðveldari og betri. Hann er samfélag þeirra sem starfa við fjártækni og vilja stuðla að aukinni verðmætasköpun, samkeppni og bættum lífskjörum.
Fjártækniklasinn mun standa fyrir viðburðum, svo sem fundum um margvísleg svið fjártækni, kynningar á nýsköpunarfyrirtækjum, fyrirtækjastefnumót og fleira. Klasinn vinnur einnig að framgangi fjártækni á allan hátt, svo sem með tengingum við erlend fyrirtæki og klasa, tengingu á milli mögulegra samstarfsaðila og ýmiskonar sérverkefnum.
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Helsta markmið sjóðsins er að forritun verði hluti af námskrá grunn- og framhaldsskóla. Sjóðurinn styrkir skóla svo að þeir geti boðið upp á forritunarkennslu fyrir nemendur, gefur skólum tölvubúnað og veitir ráðgjöf til menntunar og þjálfunar kennara í forritunarkennslu. Landsbankinn er einn af bakhjörlum sjóðsins ásamt Reiknistofu bankanna, Menntamálaráðuneytinu, CCP, Icelandair og fleiri fyrirtækjum.
Nánar um Forritara framtíðarinnar
Landsbankinn er bakhjarl Knattspyrnusambands Íslands. Ásamt fimm öðrum fyrirtækjum styrkir Landsbankinn uppbyggingarstarf íslenskrar knattspyrnu um land allt, öll yngri landslið og A-landslið karla og kvenna.
Íslenska karlalandsliðið tók þátt í lokakeppni HM í fyrsta skipti í sumar en keppnin fór fram í Rússlandi. Við fylgdumst með landsliðinu, fólkinu á bak við tjöldin og undirbúningi keppninnar á Umræðunni.
Landsbankinn hefur átt mjög gefandi samstarf við UN Women á Íslandi undanfarin ár og verið bakhjarl landsnefndarinnar í mikilvægum verkefnum. Bankinn styrkti sérstaklega HeForShe hreyfingu UN Women þetta árið. Var styrkurinn í nafni 876 fyrirtækja sem voru flokkuð sem framúrskarandi eftir greiningu Creditinfo. Landsbankinn skrifaði árið 2011 undir Jafnréttissáttmálann (Women’s Empowerment Principles – Equality Means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins.
Landsbankinn styrkti jólaaðstoð Rauða krossins á Íslandi í nóvember í nafni 857 fyrirtækja sem höfðu hlotið viðurkenningu sem framúrskarandi fyrirtæki 2018 eftir greiningu Creditinfo. Creditinfo veitir viðurkenninguna ár hvert og til að fagna þessum góða árangri í verki veitir Landsbankinn styrk við ýmis góð málefni sem afhentur er í nafni fyrirtækjanna. Að þessu sinni rann styrkurinn, að fjárhæð tvær milljónir króna, til jólaaðstoðar Rauða krossins á Íslandi.
Landsbankinn hefur verið aðili að klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012. Helsta markmið þess er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan ferðaþjónustunnar og er verkefnið unnið í anda klasaaðferðafræði Michaels Porters. Að klasasamstarfinu standa lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónustu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við greinina.
Á árinu 2018 studdi Landsbankinn Vigdísarstofnun sem starfrækt er í Veröld – húsi Vigdísar. Vigdísarstofnun er alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar og hlaut í nóvember 2011 samþykki Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, til að starfa undir merkjum hennar.