Ávarp formanns bankaráðs og bankastjóra


„Aukin markaðshlutdeild, vaxandi traust og meiri ánægja með þjónustu Landsbankans endurspeglast í góðum rekstri bankans.“

- Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs.


„Árið 2018 einkenndist af fjölmörgum spennandi nýjungum í stafrænni þjónustu og líklega er óhætt að segja að aldrei hafi orðið jafn miklar breytingar á þjónustu bankans á jafn stuttum tíma.“

- Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri.

 

Fara neðar

Ávarp formanns bankaráðs Landsbankans

Staða og rekstur Landsbankans voru áfram sterk á árinu 2018, þrátt fyrir krefjandi aðstæður í flestum greinum atvinnulífsins. Hagvöxtur var góður framan af ári en heldur hægðist á honum þegar komið var fram yfir mitt ár. Nú þegar hægir á hagvexti er staðan önnur en oft áður því skuldsetning fyrirtækja og heimila er hóflegri nú sem eykur líkur á því að áhrifin verði almennt mild. Heldur dró úr fjölgun ferðamanna miðað við fyrri ár sem var í samræmi við flestar spár. Óróleiki á vinnumarkaði og rekstrarafkoma íslensku flugfélaganna jók á efnahagslega óvissu. Á sviði stjórnmálanna ríkti á hinn bóginn meiri stöðugleiki en verið hefur lengi. Það sama var þó ekki uppi á teningnum erlendis þar sem m.a. fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu og vaxandi spenna í milliríkjaviðskiptum höfðu mikil áhrif á fjármálamarkaði. Af framansögðu er ljóst að búast má við því að árið 2019 verði í senn viðburðaríkt og krefjandi.

Rekstur og staða Landsbankans

Aukin markaðshlutdeild, vaxandi traust og meiri ánægja með þjónustu Landsbankans endurspeglast í góðum rekstri bankans. Hagnaður Landsbankans á árinu 2018 nam 19,3 milljörðum króna, samanborið við 19,8 milljarða króna árið 2017. Rekstrartekjur jukust um 398 milljónir og rekstrargjöld, þar með talið laun, hækkuðu um 87 milljónir. Laun og launakostnaður hækkaði um 3,8% en annar rekstrarkostnaður lækkaði um 4,5%. Kostnaðarhlutfall bankans var 45,5% í lok ársins og lækkaði frá fyrra ári. Arðsemi eiginfjár eftir skatta var 8,2% og var óbreytt á milli ára en langtímamarkmið bankans er að 10% arðsemi sé af eigin fé.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs

Efnahagur Landsbankans er traustur. Eigið fé bankans í árslok 2018 var 239,6 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfallið var 24,9% sem telst hátt í alþjóðlegum samanburði og er vel umfram kröfur Fjármálaeftirlitsins. Traustur og góður rekstur og hagstætt efnahagsumhverfi hefur gert Landsbankanum kleift að greiða verulegar fjárhæðir í arð. Frá árinu 2013 hafa arðgreiðslur bankans alls numið um 132 milljörðum króna. Arðgreiðslurnar hafa nánast að öllu leyti runnið í ríkissjóð og þannig komið öllu samfélaginu til góða.

Við stofnun Landsbankans hf. í október 2008 lagði íslenska ríkið Landsbankanum til 122 milljarða króna. Þegar tekið hefur verið tillit til vaxtakostnaðar ríkisins, arðgreiðslna, upphaflegs kaupverðs og hlutdeildar ríkisins í eigin fé bankans, nemur hrein afkoma ríkisins til og með árinu 2018 um 168,7 milljörðum króna.

Undanfarin ár hefur Landsbankinn ekki aðeins greitt meirihluta af hagnaði fyrra árs í arð til hluthafa, heldur einnig greitt hluthöfum sérstakar arðgreiðslur. Þetta hefur bankinn gert í þeim tilgangi að lækka eigið fé bankans og stuðla þar með að hagstæðari fjármagnsskipan. Eiginfjárhlutfall bankans var 30,4% í árslok 2015 en er nú 24,9%, eins og fyrr segir.

Bankaráð hefur nú samþykkt nýja arðgreiðslustefnu þar sem kemur fram að Landsbankinn stefnir að því að reglulegar arðgreiðslur til hluthafa verði að jafnaði hærri en sem nemur 50% af hagnaði fyrra árs. Í samræmi við markmið um eiginfjárhlutfall er einnig stefnt að sérstökum arðgreiðslum til þess að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan bankans. Við ákvörðun um fjárhæð arðgreiðslna verði sem fyrr tryggt að bankinn viðhaldi afar sterkri fjárhagsstöðu. Þannig verði tekið mið af áhættu í rekstrarumhverfi bankans, vaxtarhorfum, að bankinn viðhaldi til framtíðar traustri eiginfjár- og lausafjárstöðu og uppfylli lögbundnar kröfur um fjárhagsstöðu á hverjum tíma.

Bankaráð Landsbankans mun leggja til við aðalfund þann 20. mars 2019 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2018 sem nemur 0,42 krónu á hlut, eða samtals 9,9 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur um 52% af hagnaði ársins 2018. Verði tillagan samþykkt mun bankinn hafa greitt samtals um 141,6 milljarða króna í arð á árunum 2013-2019. Við arðgreiðsluna mun eigið fé bankans lækka um eitt prósentustig og verða 23,9%.

Skipting eignarhalds á Landsbankanum hf.

Nafn Eignarhlutur
Ríkissjóður Íslands 98,20%
Landsbankinn hf. 1,56%
Aðrir hluthafar* 0,24%
Fjöldi hluthafa 883
   
*Árið 2013 fengu um 1.400 starfsmenn og fyrrum starfsmenn afhenta hluti í Landsbankanum í samræmi við samning um uppgjör LBI hf. og íslenska ríkisins. Við samruna Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands eignuðust fyrrum stofnfjárhafar í sjóðunum hluti í bankanum.
Arðgreiðslur Landsbankans hf. (m. kr.)

Betri þjónusta með nýjum stafrænum lausnum

Undir lok árs 2017 lauk Landsbankinn við innleiðingu á nýju innlána- og greiðslukerfi í samvinnu við Reiknistofu bankanna en nýja kerfið leysti af hólmi allt að 40 ára gömul tölvukerfi. Við þau tímamót skapaðist svigrúm fyrir starfsmenn bankans til að huga enn betur að þörfum viðskiptavina. Markið var sett hátt og á árinu litu fjölmargar nýjar stafrænar lausnir dagsins ljós. Allar þessar nýjungar eiga það sammerkt að auðvelda viðskiptavinum bankans að fá hraðari og betri þjónustu, hvar og hvenær sem þeim hentar. Ánægjulegt var að sjá hversu vel viðskiptavinir tóku þessum nýjungum og eru viðtökurnar frekari hvatning að halda áfram á þessari braut. Áhersla verður ekki síst lögð á að bæta enn frekar þjónustu við fyrirtæki um allt land sem eru í viðskiptum við bankann. Við viljum vera í fararbroddi við umbreytingu á bankaþjónustu á Ísland með góða þjónustu, öryggi gagna, persónuvernd og ábyrgð að leiðarljósi.

Húsnæðismál bankans

Mikil notkun er á þeim stafrænu lausnum sem bankinn hefur kynnt til þessa. Ekki fer á milli mála að bankaþjónusta er í auknum mæli að færast á netið og í símann og er að breytast með tilkomu ýmiskonar fjártækni. Þessi þróun hefur leitt af sér töluverðar breytingar á starfsemi Landsbankans. Með tilkomu sífellt fleiri stafrænna lausna í bankaþjónustu hefur húsnæðisþörf bankans breyst, jafnt í afgreiðslum og útibúum sem og í höfuðstöðvum bankans. Við þessu hefur bankinn m.a. brugðist með því að hefja byggingu hentugra og hagkvæmara húsnæðis fyrir dreifða starfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Hönnun hússins við Austurhöfn gengur vel og á næstu vikum og mánuðum verða fyrstu útboðin auglýst. Eftir því sem hægt er að sinna fleiri erindum í síma og tölvu fækkar heimsóknum viðskiptavina í útibú. Landsbankinn hefur tekið þá stefnu að aðlaga þjónustu útibúa að þessari þróun, s.s. með breyttum afgreiðslutíma og með því að breyta þeirri þjónustu sem er í boði í útbúum og afgreiðslum. Landsbankinn rekur langstærsta útibúanet íslenskra banka en alls eru útibú og afgreiðslur bankans 37 talsins. 

Áhersla Landsbankans á að veita góða þjónustu á landsvísu er óbreytt, enda eru viðskiptavinir bankans búsettir um land allt. Fyrirséð er að útibúanet bankans muni halda áfram að þróast en gæta verður að því að ekki sé farið of geyst í þeim efnum.

Breytingar á bankaþjónustu hafa ennfremur leitt til þess að nú eru gerðar nýjar kröfur til þekkingar og hæfni starfsfólks. Bankinn þarf í mörgum tilfellum annars konar þekkingu, reynslu og hæfni en fyrir 5-10 árum síðan. Nýtt verklag í þjónustu við viðskiptavini, vöruþróun og innleiðingu nýrra lausna kallar á meiri samvinnu, þvert á svið og deildir. Starfsfólk í útibúum hefur tekið að sér ný störf, ný hlutverk og tileinkað sér nýja þekkingu. Enn frekari breytingar eru í farvatninu og það verður áskorun fyrir starfsfólk að takast á við þær. Bankinn stendur þó vel að vígi. Starfsfólk Landsbankans er metnaðarfullt og duglegt og er tilbúið að mæta áskorunum framtíðarinnar.

Samkeppni úr mörgum áttum

Innleiðing nýrra laga og reglna setti töluverðan svip á starfsemi Landsbankans og það er ljóst að nýtt regluverk mun hafa áhrif á rekstur hans og samkeppnisumhverfi til framtíðar. Ný persónuverndarlöggjöf og tilskipun um greiðsluþjónustu (PSD2) ber þar kannski hæst.Nýja persónuverndarlöggjöfin, sem gekk í gildi árið 2018, breytir stöðu neytenda gagnvart öllum fyrirtækjum og stofnunum sem safna persónuupplýsingum. Bankanum gekk vel að innleiða löggjöfina og þegar nýjar reglur tóku gildi um mitt ár gat bankinn þá þegar veitt einstaklingum þær upplýsingar sem þeir eiga rétt á. Frá því að reglurnar tóku gildi og til áramóta höfðu um 250 einstaklingar óskað eftir aðgangi að eigin persónuupplýsingum og upplýsingum um notkun þeirra.

Þegar ný tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu (PSD2) tekur gildi hér á landi öðlast neytendur rétt til að veita öðrum fyrirtækjum aðgang að sínum bankaupplýsingum. Í þessu felast mikil tækifæri á sviði fjártækni en jafnframt er ljóst að samkeppnin mun aukast og keppinautum fjölga. Við í Landsbankanum munum taka þessum breytingum opnum örmum og einblínum á tækifærin sem skapast til að veita einstaklingum og fyrirtækjum betri þjónustu en áður. Landsbankinn mun reiða sig á góð upplýsingatæknikerfi, öryggi og ábyrga meðferð gagna til að skapa sér sérstöðu á markaði.

Með vaxandi samkeppni bæði innanlands sem utan þurfa stjórnvöld að huga að því með hvaða hætti megi minnka skattbyrði og kostnað við eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja. Þessi kostnaður gerir bönkunum erfiðara um vik að bæta kjör viðskiptavina sinna. Sú ákvörðun stjórnvalda að sameina Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið mun vafalítið stuðla að aukinni skilvirkni. Á árinu 2018 greiddi Landsbankinn um 10,1 milljarð króna í skatta en þar af námu sérstakir skattar á heildarskuldir, svokallaður bankaskattur, um 3,3 milljörðum króna. Landsbankinn greiddi 471 milljón króna til Fjármálaeftirlitins og 76 milljónir króna til umboðsmanns skuldara. Framlag bankans í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) nam rúmlega 1,3 milljörðum króna.

Mikilvægt að stuðla að auknu trausti

Í desember 2018 kom út Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Hvítbókin er góð samantekt á stöðu og helstu áskorunum sem fjármálakerfið stendur frammi fyrir. Í henni er meðal annars rætt um stóra eignarhluti ríkisins í Landsbankanum og Íslandsbanka. Það er eigenda að ákveða hvort og hvenær eignarhlutir í bönkunum verða seldir. Okkar hlutverk sem sitjum í stjórnum þessara banka er að stuðla að því að þeir séu reknir á hagkvæman og ábyrgan hátt. Í hvítbókinni er m.a. fjallað um niðurstöður skoðanakönnunar sem sýndi að fólk ber almennt lítið traust til bankakerfsins en treystir betur sínum eigin viðskiptabanka. Það er ánægjulegt að traust til Landsbankans eykst jafnt og þétt, samkvæmt mælingum sem Gallup gerir fyrir bankann, en um leið er ljóst að við eigum verk fyrir höndum til að endurvinna það traust sem glataðist fyrir um áratug síðan. Það er skylda okkar í bankaráði að halda áfram að byggja upp traust til bankans. Bankaráð Landsbankans tekur þær niðurstöður sem komu fram í fyrrnefndri skoðanakönnun til sín og mun leggja enn frekari áherslu á að auka tiltrú viðskiptavina og almennings á bankanum. Þetta hefur verið eitt af helstu áherslumálum bankaráðs frá 2016 og verður svo áfram.

Á aðalfundi bankans 21. mars 2018 voru Berglind Svavarsdóttir, Einar Þór Bjarnason, Hersir Sigurgeirsson, Jón Guðmann Pétursson, og Sigríður Benediktsdóttir endurkjörin í bankaráð Landsbankans. Samúel Guðmundsson var þá kjörinn í bankaráð í stað Magnúsar Péturssonar en Samúel hætti í bankaráði í nóvember sl.

Starfsfólk Landsbankans sýndi það svo sannarlega á árinu að í því býr kraftur og það leggur mikið á sig til að veita viðskiptavinum bankans enn betri þjónustu. Ég þakka starfsfólki afar gott samstarf á liðnu ári og ég treysti því til áframhaldandi góðra verka.

Fyrir hönd bankaráðs Landsbankans þakka ég viðskiptavinum, hluthöfum og eftirlitsaðilum góð samskipti á liðnu ári.

Ávarp bankastjóra Landsbankans

Landsbankinn leggur megináherslu á að þjónusta bankans mæti þörfum viðskiptavina og að reksturinn sé traustur, bæði til lengri og skemmri tíma. Mikil tækifæri felast í þeim tækniframförum og breytingum á fjármálaþjónustu sem eiga sér stað um þessar mundir og jafnframt er töluverð áskorun fyrir bankann að mæta auknum kröfum á þessu sviði.

Við erum þakklát því mikla trausti sem viðskiptavinir bankans sýna okkur. Markaðshlutdeild Landsbankans á bankamarkaði hefur aukist jafnt og þétt og er sú mesta á landinu, fimmta árið í röð. Hlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði mælist nú um 38% og 34% á fyrirtækjamarkaði. Ánægja með þjónustuna mælist hærri en fyrr, traust til bankans hefur vaxið og það er einkar ánægjulegt að kannanir sýna að viðskiptavinir Landsbankans eru líklegri til að mæla með sínum banka en viðskiptavinir annarra banka.

Rekstur Landsbankans gekk vel á árinu 2018 og góður árangur við innleiðingu nýrra stafrænna lausna til viðskiptavina byrjaði að skila sér í hagkvæmari rekstri. Útlán jukust umtalsvert, og heldur umfram áætlanir, en þó í takt við stefnu bankans og innan vel skilgreindrar útlánastefnu. Útlán eru nú um 80% af heildareignum og er Landsbankinn nú umsvifasmestur íslensku bankanna í fasteignalánum til einstaklinga. Það er ánægjulegt að bankinn sé í þeirri stöðu að geta stutt vel við yngri kaupendur fyrstu fasteigna og helstu atvinnugreinar landsins.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

Árangur af áherslu á hagræðingu og skilvirkni í rekstri kom berlega í ljós en heildarrekstrarkostnaður bankans stóð nánast í stað milli ára, þrátt fyrir kjarasamningsbundnar launahækkanir, því annar rekstrarkostnaður en laun lækkaði um 4,5%.

Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði í 45,5%. Arðsemi eiginfjár fyrir árið var 8,2%. Á innlendum verðbréfamörkuðum voru óhagstæðar aðstæður, annað árið í röð, og þrátt fyrir góða afkomu af eignastýringu og leiðandi stöðu bankans í verðbréfa- og gjaldeyrisviðskiptum, lækkuðu aðrar rekstrartekjur milli ára. Umsvif bankans í verðbréfaviðskiptum eru tilkomin vegna þess að Landsbankinn er viðskiptavaki fyrir fjölmörg íslensk fyrirtæki og stuðlar þannig að eðlilegri verðmyndum og seljanleika á mörkuðum fyrir íslenska fjárfesta, hvernig sem árar.

Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að auka hagkvæmni í fjárhagsskipan bankans. Mikilvægur áfangi í því starfi náðist síðastliðið sumar þegar farið var í fyrstu víkjandi skuldabréfaútgáfu bankans að fjárhæð 100 milljónir evra. Landsbankinn gaf auk þess út sértryggð skuldabréf á Íslandi og var sem fyrr með nokkuð háa hlutdeild í heildarinnlánum.

Í lok árs voru helstu áhættumælikvarðar í samræmi við áhættuvilja bankans og almennt hefur dregið úr áhættu í rekstri hans. Hlutfall vandræðalána stendur í stað milli ára og er 2%. Starfsfólk bankans er mjög meðvitað um þá áhættu sem felst í fjármálastarfsemi og hefur langa reynslu af því að vinna með viðskiptavinum að undirbúningi mikilvægra ákvarðana, hvort sem er í einstaklingsviðskiptum eða í fyrirtækjarekstri. Við munum halda áfram að þróa og bæta áhættugreiningu og áhættustjórnun og sjá til þess að þeirri þekking sem er til staðar meðal starfsfólks sé viðhaldið og skili sér í góðum rekstri bankans til lengri tíma.

Í byrjun árs var nýr reikningsskilastaðall innleiddur og um mitt ár var lokið við innleiðingu á nýrri persónuverndarstefnu. Framundan eru fleiri umfangsmikil verkefni við innleiðingu á nýjum reglum og lögum sem flest eiga það sammerkt að auka kröfur sem gerðar eru til dagslegs reksturs bankans.

Markvisst hefur verið unnið að því að samfélagsábyrgð sé órjúfanlegur hluti af kjarnastarfsemi Landsbankans. Meðal fjárfesta og samstarfsaðila bankans, innanlands sem utan, er aukinn áhugi á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og mikil tækifæri fylgja skýrri stefnu og aðgerðum í þessum efnum. Landsbankinn hefur ákveðið að skrifa undir yfirlýsingu um að fylgja nýjum viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi, sem voru sett að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna, og tengjast áætlun þeirra um að ná heimsmarkmiðunum. Viðmiðin um ábyrga bankastarfsemi eru sameiginlegur grundvöllur til samskipta og aðgerða og aðild bankans að þeim gerir honum auðveldara að miðla upplýsingum um stefnu og árangur í samfélagsábyrgð. Starfsfólk bankans hefur byggt upp mikla þekkingu á málaflokknum og bankinn er í oddastöðu sem trúverðugur samstarfsaðili fyrirtækja sem vilja m.a. nýta sér aukinn áhuga fjárfesta á grænni fjármögnun.

Stöðugildi í árslok

*Mestu munaði um samruna Landsbankans og SP-KEF

Bankaviðskipti hvar sem er og hvenær sem er

Vöruþróun, breytingar og nýsköpun er fastur og nauðsynlegur þáttur í vexti og rekstri bankans og bættri þjónustu við viðskiptavini. Árið 2018 einkenndist af fjölmörgum spennandi nýjungum í stafrænni þjónustu og líklega er óhætt að segja að aldrei hafi orðið jafn miklar breytingar á þjónustu bankans á jafn stuttum tíma. Framboð bankans á nýjum lausnum byggir á traustum grunni þar sem öflug tæknigeta, framúrskarandi starfsfólk, sterk markaðshlutdeild, fjölbreyttar þjónustuleiðir og áhersla á að efla og viðhalda persónulegum viðskiptasamböndum eru lykilþættir.

Í febrúar 2018 var Landsbankaappið sett í loftið og fjölmargar nýjar stafrænar lausnir fylgdu í kjölfarið, m.a. nýtt kortaapp bankans sem var fyrsta appið á Íslandi sem gerir notendum kleift að greiða með símanum í snertilausum posum. Kortaappið var þróað í samvinnu við Visa International en Landsbankinn var eitt af fyrstu samstarfsaðilum félagsins. Alls kynnti bankinn um 20 nýjar lausnir eða stórbættar eldri útgáfur á árinu, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Samhliða aukinni áherslu á stafræna þjónustu leggur bankinn ríka áherslu á öryggi í upplýsingatækni.

Viðskiptavinir voru fljótir að tileinka sér þessar nýjungar og má nefna sem dæmi að um hálfu ári eftir að opnað var fyrir erlendar greiðslur í netbanka einstaklinga fóru um 86% af erlendum greiðslum fram í gegnum netbankann. Þótt töluverður kostnaður fylgi fjárfestingu í þróun á stafrænni þjónustu er hún hagkvæmari til lengri tíma litið, bæði fyrir viðskiptavini og bankann. Mikill tími og fyrirhöfn sparast með því að viðskiptavinir geti sjálfir gengið frá greiðslumati á netinu, undirritað skjöl með rafrænum hætti og fryst greiðslukort og síðan opnað þau aftur, svo dæmi séu tekin, og slíkar sjálfsafgreiðslulausnir eru því almennt ódýrari fyrir viðskiptavini en þjónusta í útibúum. Við munum halda áfram að einfalda og hagræða með þessum hætti í rekstrinum til lengri tíma og jafnframt koma til móts við þarfir viðskiptavina og breyttar aðstæður í fjármálaþjónustu.

Við finnum greinilega fyrir ánægju viðskiptavina með að geta fengið persónulega þjónustu og ítarlega fjármálaráðgjöf, þegar það á við. Um leið vilja viðskiptavinir að hægt sé að nota stafrænar lausnir til að sinna einfaldari aðgerðum.

Áhersla á samvinnu, persónulega þjónustu og traust viðskiptasambönd

Skipulagi útibúa hefur verið breytt til að bæta aðstöðu fyrir fjármálaráðgjöf, auka aðgengi að sjálfsafgreiðslulausnum og starfsfólk hefur fengið tækifæri til menntunar og þjálfunar. Á árinu voru gerðar breytingar á afgreiðslutíma í hluta útibúa bankans en styttri afgreiðslutími endurspeglar aukna notkun stafrænna lausna og færri heimsóknir í útibúin.

Fjölmargar nýjungar voru kynntar í netbanka fyrirtækja á árinu sem veita fyrirtækjum m.a. betri yfirsýn yfir reksturinn og fleiri möguleika til sjálfsafgreiðslu. Þessum nýjungum var mjög vel tekið og mun bankinn áfram leggja áherslu á að auka og bæta þjónustu við fyrirtæki. Mikil ánægja hefur verið með yfirgripsmikla fyrirtækjaþjónustu, sem nefnist 360° samtal, en í samtalinu fá forsvarsmenn fyrirtækja skýra mynd af fjármálunum. Á árinu 2018 var rætt við forsvarsmenn um 400 fyrirtækja og mæltist þessi þjónusta afar vel fyrir. Sambærileg þjónusta, 360° ráðgjöf, er í boði fyrir einstaklinga og sýna kannanir að mikil ánægja er með þá markvissu yfirferð yfir fjármálin sem þjónustan felur í sér.

Breytingar í bankaþjónustu krefjast nýrra vinnubragða. Nokkur mikilvæg og umfangsmikil verkefni hjá bankanum hafa verið unnin í verkefnahópum sem sitja og starfa saman í 3-4 mánuði á meðan unnið er að afmörkuðu viðfangsefni. Samvinna sem þessi og forgangsröðun verkefna hafa skilað áþreifanlegum árangri og er vilji til að auka enn frekar slíka hópavinnu innan bankans. Til að bankinn geti náð árangri og bætt þjónustu við viðskiptavini þarf vinnuumhverfið að vera gott og hæfa starfseminni. Núverandi húsakynni bankans í miðborg Reykjavíkur eru bæði óhagkvæm og óhentug og það verður því mikil framför þegar bankinn flytur í nýtt hús sem hæfir starfseminni betur.

Landsbankinn hefur skýra stefnu í jafnréttismálum og á árinu var settur aukinn kraftur í þann málaflokk, m.a. með þátttöku bankans í Jafnréttisvísi Capacent. Staða jafnréttismála innan bankans var metin með ítarlegri greiningu og samvinnu við starfsfólk og í kjölfarið voru mótuð skýr markmið um hvernig megi vinna áfram að því að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri kynjanna. Landsbankinn hefur tvívegis fengið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC og í kjölfar lagasetningar um jafnlaunavottun hefur farið fram lokaúttekt vegna vottunar samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Formleg staðfesting mun liggja fyrir eftir nokkrar vikur.

Landsbankinn hefur eflst á árinu 2018 - aukin markaðshlutdeild, bætt rekstrarafkoma, aukin ánægja og traust viðskiptavina er hvatning til að gera enn betur. Ég þakka viðskiptavinum og samstarfsaðilum fyrir mjög gott samstarf á árinu og starfsfólki og bankaráði fyrir öflugt og metnaðarfullt starf.