Stefna og stjórnarhættir


Árangurinn af áherslu bankans á stafræna tækni kom greinlega í ljós á árinu 2018 þegar fjöldi nýrra lausna á sviði stafrænnar þjónustu, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga var kynntur til sögunnar. Landsbankinn lítur svo á að stafræn tækni og persónuleg viðskiptasambönd fari vel saman.

Fara neðar
Sólarlag

Alhliða fjármálaþjónusta sem mætir þörfum viðskiptavina

Stefna Landsbankans er að bjóða alhliða fjármálaþjónustu sem mætir þörfum viðskiptavina. Bankinn ætlar að vera hreyfiafl og starfa í sátt við samfélagið og umhverfið.

Framtíðarsýn bankans er að vera til fyrirmyndar og hlutverk hans er að vera traustur samherji í fjármálum. Bankinn vill að viðskiptavinir hans geti sagt: „Svona á banki að vera.“

Hlutverk: Landsbankinn er traustur samherji í fjármálum

Árið 2017 voru kynntar nýjar stefnuáherslur þar sem megináhersla er á framfarir í stafrænni þróun og þjónustu við viðskiptavini. Stefnan er í fjórum liðum:

Aðgengi: Viðskiptavinir geta með einföldum hætti sinnt öllum helstu bankaviðskiptum sínum hvar og hvenær sem þeim hentar. Þeir hafa gott aðgengi að upplýsingum og góða yfirsýn yfir fjármálin.

Skilvirkni: Viðskiptavinir spara tíma og fyrirhöfn með lausnum bankans. Erindi þeirra eru afgreidd hratt og örugglega með þeirri þjónustuleið sem þeir kjósa.

Virðisaukandi: Viðskiptavinir fá persónulega þjónustu sem er sniðin að þeirra þörfum. Þeir upplifa að samband þeirra við bankann sé verðmætt og að viðskiptasagan skipti máli.

Frumkvæði: Viðskiptavinum er sýndur áhugi og á þá er hlustað. Þeir finna að starfsfólk bankans vinnur starf sitt af fagmennsku og sýnir frumkvæði.


  • Við setjum viðskiptavininn í forgang.
  • Við byggjum á öflugu samstarfi og stöðugum framförum.
  • Hjá okkur tekur hver og einn ábyrgð á að árangur náist.

Leiðandi í bankaþjónustu á Íslandi

Landsbankinn veitir víðtæka bankaþjónustu og megináhersla er lögð á að tryggja að þjónustan mæti þörfum viðskiptavina og að reksturinn sé traustur bæði til lengri og skemmri tíma. Sterk kerfisleg undirstaða, markaðshlutdeild og stærð, þjónustuleiðir, persónuleg viðskiptasambönd og framúrskarandi starfsfólk eru grunnstoðir bankans sem byggt verður á til framtíðar. Vöruþróun, breytingar og nýsköpun eru fastir og nauðsynlegir þættir í vexti og rekstri bankans og stuðla að því að bankinn sé leiðandi í bankaþjónustu á Íslandi.

Stafræn þjónusta og persónuleg viðskiptasambönd

Persónuleg þjónusta er mikilvæg og reynslan sýnir að stafræn þjónusta og persónuleg viðskiptasambönd fara vel saman. Hjá Landsbankanum er litið svo á að velgengni í stafrænni þjónustu geti ráðist af fjölmörgum þáttum, til dæmis notendaupplifun, aðgengi, þjálfun starfsfólks, öryggi, áreiðanleika, verði, einfaldleika, ímynd og markaðssetningu. Lykilatriði er að viðskiptavinurinn fái ávallt jafn góða þjónustu, hvaða leið sem hann kýs í samskiptum við bankann.

Fjöldi nýrra stafrænna lausna 2018

Á árinu 2018 voru verkefni sem snúa að stafrænni framþróun í þágu viðskiptavina sett í forgang. Árangurinn lét ekki sér standa og á árinu voru um 20 nýjar stafrænar lausnir kynntar fyrir viðskiptavinum. Má þar nefna útgáfu Landsbankaappsins, opnað var fyrir erlendar greiðslur í netbanka einstaklinga, sjálfsafgreiðslu í breytingu á kortaheimildum og rafrænt greiðslumat. Landsbankinn kynnti fyrstur íslenskra banka kortaapp sem gerir viðskiptavinum kleift að nota farsíma til að greiða fyrir vörur og þjónustu í snertilausum posum um allan heim, opnað var fyrir stofnun viðskipta í appi og á vef Landsbankans og svo mætti lengi telja. Viðtökur viðskiptavina á þessum lausnum hafa verið afar jákvæðar og greinilegt að þeir vilja geta sinnt bankaerindum hvar og hvenær sem er.

Nánar er fjallað um nýjungar í stafrænni tækni í kaflanum um betri bankaviðskipti.

Togari

Sala eigna Landsbankans á árinu 2018

Markmið stefnu Landsbankans um sölu eigna er að leggja grunn að vönduðum innri stjórnarháttum bankans hvað varðar sölu eigna og takmarka þá rekstrar- og orðsporsáhættu sem sala eigna getur falið í sér. Stefnunni er ætlað að stuðla að gagnsæi og trúverðugleika við sölu eigna og efla þannig traust til bankans. Sala eigna fer fram á viðskiptalegum forsendum þannig að sanngjarnt verð fáist fyrir eignirnar.

Eignir til sölu í árslok 2018

Alls voru 304 fullnustueignir bankans til sölu 31. desember 2018. Bókfært verðmæti þeirra var um 930 milljónir króna. Auk þess var um áramótin til sölu ein fasteign í eigu Landsbankans sem áður hýsti starfsemi bankans.

Í árslok 2018 voru eignarhlutir Landsbankans í ellefu óskráðum félögum í sölumeðferð. Eignarhlutirnir eru ýmist í eigu bankans eða Hamla fyrirtækja ehf., dótturfélags bankans. Upplýsingar um eignarhlutina voru m.a. birtar á vef bankans.

Eignir sem voru seldar á árinu 2018

Á árinu 2018 seldi Landsbankinn 190 fullnustueignir, þrjár fasteignir, fjórar bifreiðar og eignarhluti í tveimur félögum. Heildarsöluverðmæti þessara eigna nam um 10 milljörðum króna.

Upplýsingar um frávik frá meginreglu um opið söluferli

Í stefnu bankans um sölu eigna kemur fram að víkja megi frá meginreglunni um opið söluferli ef talið er að slíkt ferli brjóti gegn lögvörðum hagsmunum bankans, viðskiptalegir annmarkar séu á því að viðhafa opið söluferli, að önnur lögmæt sjónarmið mæli gegn því að hafa opið söluferli eða ef verðmæti eignar er það lítið að það réttlæti ekki kostnað við opið söluferli.

Kveðið er á um að frávik frá meginreglunni um opið söluferli skuli vera rökstudd og skráð. Slík frávik eru jafnframt háð sérstöku samþykki bankaráðs. Bankaráð getur veitt bankastjóra almenna heimild til þess að samþykkja frávik frá meginreglunni þegar verðmæti eignar er undir tilteknum mörkum.

Á árinu 2018 var í tveimur tilvikum vikið frá meginreglunni um opið söluferli. Frávikin voru samþykkt af bankaráði. Um var að ræða eignarhluti í tveimur fasteignum og var samanlagt söluverðmæti þessara tveggja eignarhluta um 40 milljónir króna.

Fullnustueignir í árslok skiptust í eftirfarandi eignaflokka:
Íbúðir 8
Atvinnuhúsnæði 2
Lóðir fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði 31
Sumarhúsalóðir 248
Sumarhús 0
Aðrar fasteignir 3
Jarðir 3
Bátar 3
Bílar og tæki 5
Birgðir 1
   304
Eignir sem seldar voru á árinu 2018* Fjöldi Samtals söluverð
Íbúðir 40 1.128.294.320
Lóðir 31 3.769.650.000
Atvinnuhúsnæði 16 439.200.000
Jarðir 10 362.900.000
Sumarhúsalóðir 17 36.049.550
Sumarhús 4 88.300.000
Bátar 4 19.200.000
Annað 3 113.550.000
Bílar og tæki 72 60.762.772
Eignarhlutir í félögum 2 3.956.352.643
Samtals 199 9.974.259.285

*Verðbréf og aðrir fjármálagerningar sem teknir hafa hafa verið til viðskipta á markaði eru seldir á markaði og telst slík sala fela í sér opið söluferli. Slík viðskipti eru undanskilin í töflunni hér að ofan.

Hrein afkoma ríkisins af Landsbankanum nemur 168,7 milljörðum króna

Við stofnun Landsbankans hf. haustið 2008 lagði íslenska ríkið bankanum til 122 milljarða króna. Þar með eignaðist ríkið 81,33% hlut í bankanum. Breyting varð á eignarhaldi Landsbankans 11. apríl 2013 þegar 18,67% hlutur, sem var í eigu Landskila fyrir hönd slitastjórnar LBI hf., rann til íslenska ríkisins og Landsbankans.

Frá stofnun Landsbankans til og með ársins 2018 hafa arðgreiðslur bankans til ríkisins numið um 131 milljarði króna, eða um 107% af upphaflegu kaupverði. Þegar tekið hefur verið tillit til vaxtakostnaðar ríkisins, arðgreiðslna og upphaflegs kaupverðs, nemur kostnaður ríkisins vegna kaupa á eignarhlut sínum í bankanum 69,7 milljörðum króna en verðmæti hlutarins* nam um áramót um 238,3 milljörðum króna. Hrein afkoma ríkisins samkvæmt þessu er því um 168,7 milljarðar króna.

Ríkissjóður heldur auk þess á hlutum í Landsbankanum vegna eignarhalds ríkisins í Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Norðurlands en ekki er tekið tillit til þessara hluta í ofangreindri samantekt. Eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum var samtals 99,8% af útistandandi hlutum í árslok 2018.

Afkoma ríkisins af eignarhlut í Landsbankanum
Stofnframlag -122.000
Vaxtagreiðslur af stofnframlagi -71.693
Framreiknuð vaxtaáhrif** -6.637
Arðgreiðslur 130.660
Hlutdeild í eigin fé 238.347
Hrein afkoma ríkisins 168.677

* Miðað við bókfært eigið fé 31.12.2018

** Framreiknuð vaxtaáhrif vaxtagreiðslna og arðgreiðslna


Allar tölur í milljónum króna

Fyrirmyndafyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Góðir stjórnarhættir Landsbankans leggja grunninn að traustum samskiptum hluthafa, bankaráðsmanna, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun bankans. Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti og gerðar eru reglulegar úttektir á því hvort stjórnarhættir bankans á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.

Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti tilkynnti í apríl 2018 um endurnýjun á viðurkenningu Landsbankans sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum fyrir tímabilið 2017-2018. Viðurkenningin byggir á úttekt Deloitte ehf. á stjórnarháttum bankans sem fram fór í janúar 2017. Viðurkenningin er fyrst og fremst veitt til þess að ýta undir umræður og aðgerðir sem efla góða stjórnarhætti.

Ný stefna um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga

Ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga tóku gildi 15. júlí 2018 en með þeim var reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd innleidd í íslenskan rétt. Landsbankinn hafði undibúið gildistökuna vel og í júní 2018 setti bankinn sér nýja stefnu um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Bankinn hefur uppfært verkferla og verklagsreglur sem þessu tengjast. Þá hefur starfsfólk fengið ítarlega fræðslu um nýja persónuverndarlöggjöf og breytt verklag sem af henni leiðir.

Skömmu fyrir gildistöku laganna var opnuð réttindagátt fyrir viðskiptavini á vef Landsbankans. Einstaklingar geta nýtt sér réttindagáttina til að, meðal annars, óska eftir aðgangi að eigin persónuupplýsingum sem bankinn notar við starfsemi sína, óska eftir leiðréttingu eða biðja um að tilteknum persónuupplýsingum um þá verði eytt úr kerfum bankans. Á árinu 2018 afgreiddi Landsbankinn um 250 beiðnir frá einstaklingum um aðgang að persónuupplýsingum.

Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Landsbankinn leitast við að uppfylla ítrustu kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja bæði hérlendis og erlendis um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Landsbankinn vann að innleiðingu á nýju rafrænu eftirlitskerfi árið 2018 sem er mikilvægur þáttur í að fylgjast með öllum viðskiptum sem daglega fara í gegnum bankann. Rafræn eftirlitskerfi eru mikilvægur þáttur í því að koma í veg fyrir að rekstur Landsbankans verði notaður til að þvætta fjármuni eða fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Þá hófst innleiðing á nýjum lögum sem tóku gildi 1. janúar 2019 (nr. 140/2018) um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í samræmi við lögin mun bankinn nú framkvæma áhættumat á rekstri bankans og viðskiptavinum.


Stjórnarháttayfirlýsing

Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og gerir grein fyrir þessum þætti í stjórnarháttayfirlýsingu bankans ár hvert. Þar koma einnig fram nánari upplýsingar um bankaráð og undirnefndir þess.

Lesa stjórnarháttayfirlýsinguna í heild

Nánar um réttindagátt viðskiptavina